Afturelding vann stórsigur í Grill66-deild kvenna í handbolta þegar HK-U kom í heimsókn að Varmá. Lokatölur leiksins urðu 38-20 í leik þar sem Afturelding hafði mikla yfirburði. Afturelding hefur farið vel af stað á leiktíðinni unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni.
Vel gekk í vörn og sókn hjá Aftureldingu í leiknum. Markahæst var Kristín Arndís Ólafsdóttir en hún skoraði 9 mörk. Þóra María Sigurjónsdóttir og Jónína Líf Ólafsdóttir skoruðu sex mörk hver. Arna Þyrí Ólafsdóttir lék sinn fyrsta leik fyrir Aftureldingu og skoraði 4 mörk. Ástrós Anna Bender varði 14 skot í marki Aftureldingar og átti Eva Dís Sigurðardóttir einnig góða innkomu af bekknum og varði sjö skot.
Afturelding er í 4. sæti deildarinnar með sex stig að loknum fjórum leikjum. Næsti leikur Aftureldingar í deildinni fer fram á þriðjudag gegn Fram-U í Safamýri. Næsti heimleikur fer fram mánudaginn 29. október þegar Fjölnir kemur í heimsókn.
Leikurinn var í beinni útsendingu á AftureldingTV og má sjá leikinn hér að neðan.