Afturelding vann afar öruggan sigur á Akureyri, 30:22, í 15. umferð Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í dag. Aldrei lék vafi hvorum megin sigurinn félli því Akureyrarliðið stóð Mosfellingum langt að baki frá nánast fyrstu mínútu leiksins. Staðan í hálfleik var 16:12, Aftureldingu í vil, sem situr áfram í fimmta sæti deildarinnar, hefur nú 17 stig.
Aftureldingarliðið tók völdin í leiknum strax í upphafi. Varnarleikur liðsins var góður og Arnór Freyr Stefánsson vel með á nótunum í markinu. Akureyringar áttu erfitt uppdráttar. Sóknarleikur þeirra gekk illa og varnarleikurinn sömuleiðis þar sem Birkir Benediktsson og Sturla Magnússon línumaður gerðu þeim gramt í geði framan af. Minnstur var munurinn eitt mark, 4:3, eftir sjö mínútur en annars var forskot Aftureldingar frá þremur og upp í fimm mörk allan hálfleikinn og Akureyringar aldrei líklegir til að blanda sér alvarlega í leikinn.
Að loknum fyrri hálfleik var Afturelding fjórum mörkum yfir, 16:12.
Afturelding skoraði fimm af fyrstu sjö mörkum síðari hálfleiks og náði í fyrsta sinn sjö marka forystu, 21:14, þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Akureyringar voru heillum horfnir. Þeir reyndu að leika vörnina framar á vellinum. Það breytti engu. Aftureldingarmenn gengu í gegnum vörnina hvað eftir annað. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var munurinn á liðunum átta mörk, 24:16, Aftureldingu í hag. Mestur varð munurinn skömmu síðar, 25:16, og aftur 27:18 nokkru síðar.