Alverk reisir knatthús að Varmá

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding, Knattspyrna

Verktakafyrirtækið Alverk mun reisa nýtt knatthús sem ráðgert er að tekið verði í noktun haustið 2019. Að loknum samningskaupaviðræðum við bjóðendur bárust Mosfellsbæ ný tilboð þann 12. september frá þremur fyrirtækjum. Að mati ráðgjafa Verkís og fulltrúa Mosfellsbæjar eftir yfirferð tilboðanna reyndist tilboð Alverks lægst en það nemur 621 m.kr.
Á fundi bæjarráðs þann 11. október var samþykkt að hafist verði handa við framkvæmdir við byggingu fjölnota íþróttahúss og að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda.

Húsið tekið í notkun haustið 2019
Samningurinn mun ná yfir hönnun og byggingu hússins. Gert er ráð fyrir að húsið verði byggt úr tvöföldum PVC dúk á stálgrind en undirstöður og veggir verði steinsteyptir. Húsið mun standa að austanverðu við núverandi íþróttahús þar sem eldri gervigrasvöllurinn stendur í dag.
Húsið verður um 3.800 fermetrar að grunnfleti auk innfelldrar lágbyggingar, sérútbúið til knattspyrnuiðkunar auk göngubrautar umhverfis völlinn. Gert er ráð fyrir því að húsið verði tekið í notkun haustið 2019.

Bylting í aðstöðu til knattspyrnuiðkunar
„Við hjá Mosfellsbæ erum mjög ánægð með að samningagerð vegna þessa mikilvæga verkefnis er nú að ljúka. Ég er viss um að fjölnota íþróttahús að Varmá verði til þess að styrkja enn frekar öflugt íþróttastarf í Mosfellsbæ. Í húsinu verður aðstaða fyrir alla aldurshópa en húsið mun bylta allri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í Mosfellsbæ.
Þá verður unnt að nýta svæðið í kringum völlinn til gönguferða t.d. fyrir eldri borgara þegar hálkan leggst yfir og myrkrið er mest. Loks gerir húsið okkur kleift að taka á móti nýjum iðkendum vegna fjölgunar íbúa,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Aðalstjórn Afturelding fagnar því að niðurstaða sé komin í málið. Nýtt knatthús mun bæta aðstöðu knattspyrnudeildar verulega en iðkendur knattspyrnudeildar eru í dag um 550 talsins.

Mynd: Tölvugerð mynd af útliti hússins að Varmá. Til hægri eru fulltrúar Alverks, Aðalgeir Hólmsteinsson og Halldór Karlsson auk Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra Mosfellsbæjar.