Formannspistill: „Forvarnargildi íþróttastarfs ótvírætt“

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Veturinn fer gríðarlega vel af stað hjá okkur í Aftureldingu og gaman að fylgjast með okkar öfluga fólki koma öllu í stand. Það eru ansi mörg handtök við að koma starfinu af stað í íþróttafélagi eins og okkar með 11 deildir starfandi. Raða saman stundaskrá svo að allir séu sáttir, manna allar þjálfarastöður fyrir 1.500 iðkendur en það eru ca. 120 þjálfarar hjá félaginu í haust. Draumur okkar er að engar æfingar rekist á til að gera börnum auðveldara fyrir að vera í fleiri en einni íþróttagrein, og það mun gerast smám saman.

Þann 1. október skrifuðum við undir samning til fjörurra ára við Namo sport og er félagið þá aftur komið í fatnað frá Jako eftir 8 ára hlé, varanlegar keppnistreyjur koma hins vegar ekki fyrr en um áramót þar sem þær eru í framleiðslu.

Starfsdagur Aftureldingar var haldinn í annað sinn á dögunum í Hlégarði fyrir þjálfara og sjálfboðaliða í félaginu. Jón Júlíus og Hanna Björk eiga allan heiðurinn af þessum degi sem var í alla staði frábær, en við munum það næst að hafa meiri mat ;). Fyrirlesarar kvöldsins voru:

  • Arnar Hallsson þjálfari Mfl. Kk í knattspyrnu – Hvernig náum við markmiðum okkar.
  • Viðar Halldórsson Dr. í félagsfræðum – Hvernig höldum við gleðinni í afreksíþróttum.
  • Lára Eggertsdóttir læknir sem hefur sérhæft sig í heilashristing íþróttafólks kom með tvær stúkur í bata eftir höfuðmeiðsl.

Öll erindin voru frábær og vöktu mig til umhugsunar hvert á sinn hátt. Það sem ég tók sérstaklega til mín og vakti hjá mér stolt yfir var að sjá það svart á hvítu hversu gríðarlega mikið forvarnargildi er í félagi eins og Aftureldingu, Dr. Viðar sýndi afgerandi fram á skv. rannsóknum fylgni milli ástundunar íþrótta í skipulögðu íþróttastarfi og lægra hlutfalls barna sem byrja að nota vímuefni ýmiss konar. Við erum að skila flottu dagsverki af okkur þar, og megum vel hrósa okkur fyrir. Allur heimurinn horfir til Íslands með öfund yfir því hvernig hægt er að flétta saman uppeldis- og afreksstefnu í íþróttum á sama tíma og við skilum af okkur svona mikið af afreksfólki.

Þjálfarar Aftureldingar eru ca. 120 talsins. Hér má sjá hluta þeirra á Starfsdegi félagsins.

15. október var skrifað undir nýjan og endurbættan samning við Mosfellsbæ, það er okkur mjög mikilvægt að hafa öflugan bakhjarl sem bærinn er til þess að geta sinnt öllu þessu frábæra starfi sem fer fram hjá okkur. Ég finn fyrir miklum meðbyr frá Mosfellsbæ og mjög ánægjulegt að verið sé að byrja á byggingu fjölnota knatthúss á íþróttasvæðinu okkar. Framundan er einnig að skipta út gólfefnum í sölum 1, 2 og 3 í Varmá.

Meistaraflokkar félagsins eru börnunum afar miklar fyrirmyndir og leikmenn standa sig mjög vel sem slíkar. Knattspyrnan skilaði frábærum árangri eftir sitt tímabil í sumar og það er gleðiefni að bæði konur og karlar muni spila í Inkasso næsta tímabil, það er fyrirséð að við þurfum að fara í einhverjar endurbætur á aðstöðunni okkar og ég hef fulla trú á að það gangi vel. Handboltinn fer frábærlega af stað, í Olís-deild karla erum við í 3. sæti með 8 stig af 12 mögulegum og Grill 66-deild kvenna í 5. sæti með 6 stig af 10 mögulegum. Það er gaman að sjá hversu vel við erum að mæta á völlinn. Blakið er að rúlla af stað og verður spennandi að fylgjast með í vetur.

Áfram Afturelding!
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður