Frístundafjör

Innan vébanda Frístundafjörsins er 6-8 ára börnum gefið tækifæri til að kynnast með markvissum hætti hinum ýmsu íþróttagreinum sem Afturelding býður. Frístundafjörið er samstarfsverkefni Aftureldingar, bæjaryfirvalda og annarra íþrótta- og tómstundafélaga í bænum.

Frístundafjörið er skipulagt þannig að börnin sækja æfingar í hverri grein tvær vikur í senn.
Æfingar eru frá 14:15 til 15:30 mánudaga til fimmtudaga og kemur hvert barn tvisvar í viku.

Tilurð og markmið Frístundafjörsins.

Frístundafjörið var sett á fót haustið 2009. Undanfari þess var að komið hafði í ljós að vissir hnökrar voru á samskiptum og samstarfi skólaseljanna/bæjaryfirvalda og Aftureldingar hvað varðar fylgd barna úr skólaseljum á æfingar og yfirsýn yfir þau börn sem á hverjum tíma voru í íþróttahúsinu. Afturelding birtist foreldrum og forráðamönnum þessara ungu barna ekki sem eitt félag sem hafði ýmsa spennandi og uppbyggilega þjónustu að bjóða börnum í bænum. Þvert á móti virtist Afturelding í augum margra foreldra vera margar ótengdar einingar. Þessari ímynd vildi Afturelding breyta. Við athugun kom einnig í ljós að mörg þeirra barna sem voru í skólaseljunum stunduðu engar íþróttir og vildi íþróttafélagið skoða nýjar leiðir til að kynna sitt góða og uppbyggjandi starf fyrir börnunum og foreldrum þeirra. Þá eru ótaldar þær áhyggjur sem ýmsir forráðamenn innan Aftureldingar höfðu varðandi fækkun iðkenda vegna kreppunnar, þ.e. að foreldar myndu taka börn sín úr íþróttum vegna fjárhagsörðugleika.

Verkefnið hófst með samræðum formanns blakdeildar, Guðrúnar Kristínar Einarsdóttur og formanns barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar, Kolbrúnar Þorsteinsdóttur, sem ræddu hugsanlegar leiðir til að bregðast við. Fundað var með forsvarsmönnum bæjarins og starfsmönnum skólaseljanna og í ljós kom að það var sóknarfæri fyrir Aftureldingu til að bjóða upp á fjölbreyttar æfingar fyrir öll börn, óháð fjárhag. Þegar línurnar fóru að skýrast varðandi aðkomu bæjarins var fundað reglulega með öllum formönnum deilda innan félagsins og þáverandi framkvæmdastjóra Gyðu Helgadóttur.

Markmiðin

Markmið Frístundafjörsins er að öll börn í Mosfellsbæ á aldrinum 6 – 8 ára fái að kynnast öllum deildum Aftureldingar. Er það markmið í fullu samræmi við stefnu Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, en skv. henni eiga íþróttafélögin að bjóða börnum á aldrinum 6 – 8 ára að kynnast sem flestum íþróttagreinum. Síðar þegar þau eru orðin eldri geta þau valið sína grein og byrjað að æfa að krafti.

Markmiðið er einnig að þau börn sem ekki hafa kynnst íþróttaiðkun áður fái tækifæri til að koma í íþróttahúsið og finna „sína“ íþrótt. Í því felast miklar forvarnir því hraust börn eru hamingjusöm börn. Afturelding er eitt félag sem hefur nú fengið tækifæri til að kynna starfsemi sína og sýna bæjarbúum það frábæra starf sem þar er í gangi til að efla og styrkja öll börn í bænum.