Samþykkt var á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar í morgun að auglýsa útboð á endurnýjun gólfefna í íþróttasölum 1-2 að Varmá. Gert er ráð fyrir þar verði lagt gegnheilt parket á fjaðrandi grind í samræmi við minnisblað Aftureldingar sem lagt var fyrir bæjarráð.
Skipt verður um gólf í sumar og mun gegnheilt parket leysa af hólmi dúklagt gólf á grind sem staðið hefur í íþróttahúsið frá því að það var tekið í notkun árið 1998. Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir Aftureldingu, okkar iðkendur og afreksíþróttafólk.
Handknattleikdeild Aftureldingar tók saman greinagerð vegna málsins þar sem lögð var rík áhersla á að lagt yrði parket að Varmá með hagsmuni iðkenda í huga. Rannsóknir sýna að fjöldi alvarlegra meiðsla og slysa er mun minni á parketi en á dúk. Einnig dregur það úr álagsmeiðslum að leika fremur á parketi en dúk vegna eðliseiginlega parkets sem veitir bestu fjöðrun sem völ er á og dregur þannig úr álagi á liði og liðamót.
Afturelding vill koma á framfæri þökkum til Mosfellsbæjar fyrir að hafa tekið óskir félagsins til greina og hrint þeim í framkvæmd.
Fylgiskjöl:
Greinagerð Handknattleiksdeildar Aftureldingar – Nýtt gólf að Varmá 2019