Afturelding hafði betur gegn KA

Ungmennafélagið Afturelding Blak

Nýkrýndir deildarmeistarar KA fengu lið Aftureldingar í heimsókn í Mizunodeild karla í dag. KA tryggði sér deildarmeistaratitilinn fyrir stuttu en liðið hefur haft mikla yfirburði það sem af er tímabili. Miklar sveiflur hafa hins vegar einkennt leik Aftureldingar en þeir hafa átt nokkra frábæra leiki í ár. Það var því von á hörkuleik fyrir norðan.

Sigþór Helgason hvíldi í liði KA og kom Vigfús Jónbergsson í hans stað. Benedikt Rúnar Valtýsson lék sinn fyrsta leik fyrir KA á tímabilinu en einnig hvíldi Miguel Mateo Castrillo, stigahæsti leikmaður deildarinnar. Afturelding nýtti sér þetta og var fyrsta hrinan hnífjöfn. Undir lokin náði lið KA þó að tryggja sér nauman 26-24 sigur í hrinunni.

Önnur hrina var einnig jöfn til að byrja með en þegar KA leiddi 13-12 komust gestirnir á skrið. Þeir voru töluvert sterkari í seinni hluta hrinunnar og sigruðu hana nokkuð örugglega, 22-25, þrátt fyrir smá mótspyrnu frá KA undir blálokin.

Þarna virtust liðsmenn Aftureldingar vera komnir í fluggírinn og völtuðu yfir KA í næstu tveimur hrinum. Þeir sigruðu þriðju hrinuna 17-25 og fjórðu hrinuna 18-25 og tryggðu sér þannig 1-3 sigur gegn toppliði KA. Þar með er Afturelding komin í 3. sæti deildarinnar með 16 stig eftir 12 leiki.

Alexander Arnar Þórisson skoraði 15 stig í liði KA en Piotr Kempisty skoraði 18 stig fyrir Aftureldingu. Liðin mætast öðru sinni á morgun og hefst leikurinn klukkan 13:00.

Frétt fengin af blakfréttir.is