Afturelding með sigur í fyrsta leik tímabilsins

Ungmennafélagið AftureldingBlak

Afturelding fékk Völsung í heimsókn í dag í fyrsta leik Mizunodeildar kvenna í blaki. Afturelding hóf leikinn af miklum krafti og var staðan fljótlega orðin 10-4, heimakonum í vil. Völsungur átti í vandræðum í móttökunni en það sama mátti segja um Aftureldingu í lok hrinunnar. Þá skoraði Rut Gomez þrjá ása í röð. Það dugði þó ekki til og Afturelding sigraði hrinuna 25-20. Völsungur tók þá heldur betur við sér og höfðu 1-7 forystu í byrjun hrinunnar. Aftureldingarkonur náðu að svara fljótlega og jöfnuðu 16-16. Lok hrinunnar voru svo æsispennandi en Völsungur náði í 22-25 sigur eftir góðan lokakafla.

Jafnræði var með liðunum í þriðju hrinu en um miðja hrinuna fóru mistökin að hrannast upp hjá Völsungum. Þær komust þó aftur í gang og tók Afturelding sitt annað leikhlé í hrinunni þegar Völsungur minnkaði muninn í 20-17. Afturelding hélt út og tryggði sér sigur í þriðju hrinunni, 25-21. Fjórða hrina var sveiflukennd og skiptust liðin á að taka forystuna. Völsungur virtist vera að tryggja sér oddahrinu í stöðunni 17-22 þegar Afturelding skoraði nokkur stig í röð. Völsungur gaf hins vegar ekki eftir og kláraði hrinuna 22-25.

Oddahrinan var ótrúleg að sjá. Afturelding byrjaði vel og leit ekki um öxl. Liðin skiptu um vallarhelming í stöðunni 8-0 fyrir Aftureldingu og fór liðið alla leið upp í 11-0. Hrinunni lauk svo með sigri Aftureldingar, 15-3. Afturelding vann leikinn því 3-2 og byrjar Mizunodeildina á sigri þrátt fyrir mikla mótspyrnu frá Völsungi.

Ljóst er að nýir leikmenn Völsungs koma til með að styrkja liðið heilmikið og átti Rut Gomez frábæran leik í dag. Hún skoraði 26 stig, þar af 7 stig beint úr uppgjöf. Velina Apostolova var stigahæst hjá Aftureldingu með 19 stig, þar af 6 beint úr uppgjöf. Liðin mætast öðru sinni á morgun og hefst sá leikur klukkan 13:00 að Varmá í Mosfellsbæ.

Texti frá blakfrettir.is

Leikurinn var í beinni útsendingu á AftureldingTV. Sjá má leikinn hér að neðan.