Afturelding og Álftanes skiptu með sér stigunum

Ungmennafélagið AftureldingBlak

Afturelding fékk Álftanes í heimsókn í Mizunodeildum karla og kvenna í gærkvöld. Fyrri leikur kvöldsins var leikur kvennaliðanna. Fyrir leikinn var Afturelding í 4. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki en Álftanes í því sjöunda með 12 stig eftir 15 leiki. Álftanes hefur þó verið á góðu skriði eftir áramót og var því von á spennandi leik.

Afturelding byrjaði leikinn af miklum krafti og náði fljótt mjög þægilegu forskoti sem liðið hélt nánast alla hrinuna. Í stöðunni 23-15 virtist hins vegar allt hrekka í baklás hjá liði Aftureldingar og jafnaði Álftanes leikinn 23-23. Eftir mikla spennu í lokin náði Álftanes að sigra hrinuna 26-28 og leiddi leikinn 0-1.

Önnur hrina var öllu jafnari og var staðan 14-14 um miðja hrinuna. Þá slitu Álftnesingar sig örlítið frá heimakonum og juku svo muninn undir lok hrinunnar og lauk henni með 19-25 sigri Álftaness. Þriðja hrinan var einnig jöfn til að byrja með en aftur var það sterkur lokakafli Álftnesinga sem tryggði 18-25 sigur.

Álftanes vann leikinn þar með 0-3 og jafnaði Aftureldingu að stigum í 4.-5. sæti. Karen Björg Gunnarsdóttir skoraði 12 stig fyrir Aftureldingu en Erla Rán Eiríksdóttir skoraði 18 stig fyrir Álftanes. Afturelding hefur einungis leikið 13 leiki á meðan að Álftanes hefur leikið 16.

Meiri spenna hjá körlunum

Öllu meiri spenna var í karlaleiknum en Afturelding byrjaði betur. Heimamenn tryggðu sér 25-21 sigur í fyrstu hrinu og tóku strax forystuna. Önnur hrina leiksins var hreint út sagt ótrúleg og virtist henni aldrei ætla að ljúka. Álftanes hafði 20-24 forystu en Afturelding náði að jafna í 24-24. Eftir mikla baráttu sigraði Afturelding hrinuna 37-35 og leiddi þar með 2-0.

Þriðja hrinan var eins og önnur hrina mjög jöfn og spennandi. Oft var jafnt í seinni hluta hrinunnar en Álftanes hafði yfirhöndina undir lokin. Eftir upphækkun sigraði Álftanes hrinuna 27-29 og hélt sér inni í leiknum.

Í takt við leikinn var fjórða hrinan einnig jöfn allan tímann. Jafnt var í stöðunni 18-18 en þá náði Afturelding yfirhöndinni. Álftnesingar játuðu sig þó ekki sigraða strax og minnkuðu muninn úr 24-21 í 24-23. Nær komust þeir þó ekki og Afturelding vann hrinuna 25-23 og leikinn þar með 3-1.

Tölfræði fyrir leikinn er því miður ekki aðgengileg enn sem komið er. Jordan Darlington, nýr leikmaður Álftaness, var þó öflugur í leiknum og er ljóst að hann bætir sóknarleik liðsins töluvert. Afturelding situr nú í 4. sæti deildarinnar með 13 stig eftir 11 leiki en Álftanes er í 3. sæti með 14 stig eftir 13 leiki.

Lið KA er nú þegar búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn en í 2.-5. sæti getur margt breyst. Þróttur Nes er í 5. sætinu með 10 stig og HK er í öðru sætinu með 18 stig. Það munar því ekki miklu á þessum fjórum liðum og ættu síðustu leikir tímabilsins að verða æsispennandi.