Afturelding tvöfaldur bikarmeistari í blaki

Blakdeild AftureldingarBlak

Afturelding náði þeim magnaða árangri að verða tvöfaldur bikarmeistari í blaki því bæði karla- og kvennalið félagsins fögnuðu sigri í bikarúrslitum Kjörísbikarsins. Þetta er í fyrsta sinn sem karlalið félagsins verður bikarmeistari og má með sanni segja að sigurinn hafi verið ótrúlegur en Afturelding lagði sterkt lið Stjörnunnar að velli í oddahrinu.

Afturelding vann fyrstu hrinuna með ótrúlegri endurkomu eftir að hafa verið 24-18 undir. Stjarnan vann þá tvær hrinur í röð og var í vænlegri stöðu. Lið Aftureldingar neitaði að gefast upp, vann fjórðu hrinuna með mikilli baráttu. Í oddahrinu kom lið Aftureldingar aftur tilbaka eftir að hafa verið 12-9 undir og tryggði sér sinn fyrsta bikartitil í sögu félagsins.

Alexander Stefánsson hjá Aftureldingu var valinn maður leiksins en hann skoraði 34 stig í úrslitaleiknum.

Bikarmeistari þriðja árið í röð

Sigurgleði Aftureldingar hélt áfram því konurnar fögnuðu einnig bikarmeistaratitli eftir 3-0 sigur á HK. Þetta er þriðja árið í röð sem Afturelding verður bikarmeistari en liðið er einnig ríkjandi Íslandsmeistari í greininni.

Fyrsta hrinan var æsispennandi og náði Afturelding forystunni eftir upphækkun, 28-26. Önnur hrinan fór 25-20 og sú síðasta 26-24 var sigur Aftureldingar í raun aldrei í hættu þó að þriðja hrinan hafi verið mjög spennandi.

Kate Yeazel var atkvæðamest í liði Aftureldingar með 18 stig í jöfnu og góðu liði Aftureldingar. 

Árangur helgarinnar er ekki síst vitnisburður um það frábæra starf sem unnið er innan blakdeildar Aftureldingar. Þetta er stór áfangi fyrir félagið og óskum við öllum þeim sem koma starfi blaksins í Aftureldingu; leikmönnum, þjálfurum og forystufólki blakdeilda Aftureldingar til hamingju með þennan stórglæsilega árangur.