HK stelpur mættu mjög ákveðnar til leiks og unnu þær fyrstu hrinuna næsta auðveldlega, 25-14.Í annarri hrinu var jafnræði með liðunum sem skiptust á um forystuna án þess að ná afgerandi forskoti. Í lok hrinunnar var jafnt á öllum tölum og eftir æsispennandi lokasprett lauk hrinunni 36-34 með sigri HK sem var þá í vænlegri stöðu fyrir þriðju hinuna. Sagan frá hrinu eitt endurtók sig og endaði hún 25 – 16 fyrir HK sem þar með fékk dýrmæt 3 stig í toppbaráttunni í kvennadeildinni. Stigahæstar í liði HK voru Mariam Eradze með 14 sig og Karen Björg Gunnarsdóttir með 12 stig.Stigahæstar hjá Aftureldingu voru Thelma Dögg Grétarsdóttir með 13 stig og Auður Anna Jónsdóttir með 9 stig.
Auðveldur sigur HK-karla á Aftureldingu
Síðan mættust karlalið HK og Aftureldingar og var óhætt að segja að lítil spenna ríkti í þeirri viðureign en leikar fóru þannig að HK sigraði 3 – 0 og fóru hrinurnar 25-16, 25-11 og 25-15. Stigahæstir hjá HK voru miðjumennirnir Ágúst Máni Hafþórsson með 16 stig og Theódór Óskar Þorvaldsson með 11 stig.Hjá Aftureldingu voru atkvæðamestu sóknarmenn Ismar Hadziredzepovic með 8 stig og Viktor Emile C Gauvrit með 6 stig.Með sigrinum styrkti HK enn stöðu sína á toppi Mikasadeildarinnar og er nú með 30 stig en Stjarnan kemur þar næst á eftir.