Silfurleikar ÍR voru haldnir laugardaginn 23. Nóvember s.l. í 24. sinn. Þetta er eitt stærsta innanhússmót í frjálsum íþróttum sem haldið er ár hvert. Mótið fór fram í Laugardalshöll. Mótið er haldið í minningu afreks Vilhjálms Einarssonar í þrístökki á Ólympíuleikunum árið 1956 en hann varð annar og hlaut þar með silfurverðlaun.
Afturelding átti 10 keppendur þetta árið og stóðu þau sig með stakri prýði. Ein gullverðlaun náðust, tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.
Guðmundur Auðunn Teitsson sigraði í kúluvarpi pilta 16-17 ára með kasti upp á 13,18 metra. Þess ber að geta að hann gulltryggði þar með einnig sæti í úrvalshópi ungmenna FRÍ fyrir keppnisárið 2020. Guðmundur Auðunn hafði kastað 13,27 metra í sumar en viðmiðunarlengd í úrvalshópinn er 12,73 metrar.
Elsa Björg Pálsdóttir varð önnur í hástökki stúlkna 16-17 ára. Hún stökk yfir 1,47 metra.
Arna Rut Arnarsdóttir varð önnur í þrístökki stúlkna 14 ára með stökk upp á 9,35 metra.
Isabella Rink varð þriðja í kúluvarpi stúlkna 13 ára með kast upp á 9,81 metra.
Við óskum
þeim og keppendum öllum til hamingju með árangurinn og getum haldið stolt áfram inn í veturinn með frábært lið og skemmtilega stemmingu í frjálsum. Meðfylgjandi erum myndir af verðlaunahöfunum.