Afturelding er komin aftur í toppsæti Grill 66-deildar kvenna í handbolta eftir nauman 29:27-sigur á Fram U að Varmá í gærkvöldi. Fram var með 14:12-forystu eftir fyrri hálfleikinn en Afturelding var sterkari í seinni hálfleik.
Jónína Líf Ólafsdóttir átti mjög góðan leik fyrir Aftureldingu og skoraði tíu mörk og Þóra María Sigurjónsdóttir gerði níu. Kiyo Inage bætti við sex. Hjá Fram U var Lena Margrét Valdimarsdóttir með sjö mörk og Svala Júlía Guðmundsdóttir sex.
Afturelding missti toppsætið í hendur ÍR í gærkvöldi, en fór upp í 25 stig með sigrinum í kvöld og er nú stigi á undan ÍR. Fylkir kemur þar á eftir í þriðja sæti með 21 stig.
Efsta sæti deildarinnar gefur sæti í deild þeirra bestu á meðan 2.-4. sæti keppa í umspili um eitt laust sæti í efstu deild, ásamt því liði sem hafnar í næstneðsta sæti Olísdeildarinnar.
Leikurinn var í beinni útsendingu á AftureldingTV og í fyrsta sinn var leiknum lýst. Leikinn má sjá hér að neðan.