Afturelding með fullt hús stiga

Ungmennafélagið Afturelding Handbolti

Afturelding er með fullt hús stiga á toppi Olís-deildar karla eftir eins marks sigur í æsispennandi leik að Varmá í gærkvöldi, 28-27. Leikurinn var í járnum allt frá upphafi og æsispennandi. ÍR leiddi í hálfleik 13-14.

ÍR náði þriggja marka forystu um miðjan síðari hálfleik en okkar menn komu tilbaka og náðu með góðum endaprett að vinna annan leikinn í röð og fer liðið vel af stað í deildinni í ár.

Elvar Ásgeirsson átti góðan leik hjá Aftureldingu og skoraði 6 mörk og það sama gerði Birkir Benediktson. Árni Bragi Eyjólfsson skoraði 5 mörk. Lettinn Emils Kurzemniesk lék sinn fyrsta leik með Aftureldingu en hann kom til liðs við félagið í sumar. Hann gerði 3 mörk í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Frábær liðssigur hjá okkar mönnum sem þó eiga nóg inni. Mikill fjöldi áhorfenda lagði leið sína að Varmá í gærkvöldi og var frábær stemmning á fyrsta heimaleik félagsins. Óhætt er að segja að veturinn lofi góðu og hvetjum við Mosfellinga til að fjölmenna á heimaleiki félagsins í vetur og styðja við okkar frábæru meistaraflokka. Sala á ársmiðum er hafin og verður hún auglýst betur síðar.

Afturelding er með fullt hús stiga með 4 stig að loknum tveimur umferðum og er jafnt á toppnum ásamt Selfoss og KA. Næsti leikur liðsins er á útivelli gegn Selfoss í Hleðsluhöllinni, mánudaginn 24. september.

Áfram Afturelding!

Umfjöllun Vísis um leikinn

Umfjöllun mbl.is um leikinn