Afturelding er komið í 4. sæti í Olís-deild karla eftir sigur á útivelli gegn KA í kvöld. Lokatölur urðu 30:28, þar sem Mosfellingar léku frábærlega í fyrri hálfleik. Sem betur fer varð slæm byrjun í seinni hálfleik Aftureldingu ekki að falli og bættu rauðir tveimur stigum í sarpinn.
Mosfellingar náðu undirtökunum strax í upphafi leiks og voru fljótir að koma sér upp tveggja til þriggja marka forskoti. Vendipunktur fyrri hálfleiks var hins vegar þegar Áki Egilsnes brenndi af vítakasti sem hefði getað minnkað muninn í 10:9. Eftir það hrökk allt í baklás hjá KA, Afturelding skoraði fimm mörk í röð og náði sjö marka forskoti í fyrsta sinn í leiknum 15:8. KA-menn náðu aðeins að laga stöðuna áður en fyrri hálfleikur var úti en Mosfellingar voru með þægilegt fimm marka forskot að honum loknum, 17:12.
Það forskot var hins vegar ekki þægilegra en það að KA-menn átu það upp á fimm mínútum eftir hlé. Mosfellingar voru algjörlega ráðalausir á meðan KA-menn léku á als oddi og skoruðu fyrstu sex mörk síðari hálfleiks, hvorki meira né minna. Þeir komust yfir í fyrsta sinn í leiknum 18:17, áður en Mosfellingar skoruðu sitt fyrsta mark eftir rúmlega átta mínútna leik eftir hlé.
Eftir það var allt í járnum og gríðarleg spenna þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna. KA-menn misstu hins vegar dampinn eftir þessa mögnuðu byrjun á síðari hálfleiknum og þolinmóðir Mosfellingar gengu á lagið á ný. Eftir miðjan síðari hálfleik skoruðu gestirnir fimm mörk í röð og náðu fjögurra marka forskoti á ný, 25:21.
KA-menn náðu ekki að koma til baka í annað sinn í leiknum og það var Afturelding sem hrósaði að lokum sigri 30:28. Elvar Ásgeirsson skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu en Áki Egilsnes hjá KA skoraði átta og voru þeir markahæstir.
Afturelding er eftir sigurinn með 11 stig ásamt Val í 3.-4. sætinu en KA er með sex stig í þriðja neðsta sæti.