Afturelding vann góðan sigur á Fylki í Grill66-deild kvenna í handbolta í kvöld, 24-19. Fylkir byrjaði leikinn mun betur og komst í 0-5 áður en Aftureldingarkonur náðu að svara fyrir sig. Þá tók við góður kafli og hafði Afturelding forystuna í hálfleik, 11-9.
Heimakonur lögðu grunninn að sigrinum með frábærri byrjun í síðari hálfleik. Afturelding náði mest sjö marka forystu og var sigurinn aldrei í hættu í síðari hálfleik. Kiyo Inage átti góðan leik í liði Aftureldingar og skoraði 8 mörk. Þóra María Sigurjónsdóttir var með 6 mörk líkt og Nína Líf Ólafsdóttir. Ástrós Anna Bender átti einnig góðan leik í marki Aftureldingar. Hjá Fylki var Hrafnhildur Irma Jónsdóttir með 8 mörk.
Afturelding deilir nú öðru sætinu í Grill66-deildinni með 12 stig að loknum átta leikjum. Á föstudag verður tvíhöfði að Varmá en fyrst leika konurnar gegn Gróttu kl. 18.00 í Grill66-deild kvenna. Klukkan 20.15 mæta Haukar í heimsókn að Varmá í Olís-deild karla.
Leikurinn í kvöld var í beinni útsendingu á AftureldingTV