Þrátt fyrir það er Telma hvergi nærri södd, en hún segir markmiðið að ná Eddu Blöndal hvað titlasöfnun varðar, en hún var Íslandsmeistari tólf ár í röð.
„Þetta er mjög gaman, en markmiðið er að toppa Eddu. Hún vann tólf ár í röð. Þetta er stórt markmið, en ég er hálfnuð. Það er alveg hægt að reyna það,“ sagði Telma Rut við mbl.is í dag, með fangið fullt af verðlaunum.
Telma hefur verið í fremstu röð karatefólks hér á landi um árabil, en hvernig fannst henni mótspyrnan í dag? „Mér fannst úrslitin í +61 kg flokki erfiðasta viðureignin, gegn Katrínu [Ingunni Björnsdóttur]. Hún kom sterk inn og þessar ungu stelpur eru að koma á næsta ári inn í opna flokkinn. Þá fær maður meiri mótspyrnu,“ sagði Telma.
Hún hefur verið á ferð og flugi á árinu. Hún keppti meðal annars á fyrstu Evrópuleikunum í Bakú í sumar og í síðasta mánuði var hún í eldlínunni á heimsbikarmótum.
„Ég fór til Þýskalands og Austurríkis á heimsbikarmót og gekk mjög vel í Austurríki,“ sagði Telma, en þar endaði hún í 7.-8. sæti í -68 kg flokki. Hún keppir ekkert meira erlendis á árinu en fer til Parísar í janúar á heimsbikarmót. Aðspurð hvert hún stefnir stendur heldur ekki á svari.
„Ég ætla bara að halda áfram og reyna enn að bæta mig. Mér finnst þetta alltaf jafn gaman, sérstaklega þegar maður hefur eitthvað að stefna að,“ sagði Telma, en það vekur athygli að hún er ein keppenda á Íslandsmótinu sem keppir undir merkjum Aftureldingar.
„Það eru svo ungir krakkar að æfa þetta hjá Aftureldingu. Minn aldursflokkur hætti eiginlega allur eða fór í önnur félög, en það eru nokkrir unglingar vonandi að fara að koma upp. Ég er að reyna að þjálfa krakkana og hjálpa þeim. Það er gott að vera góð fyrirmynd fyrir krakkana,“ sagði Íslandsmeistarinn Telma Rut Frímannsdóttir í samtali við mbl.is um helgina.