Telma Rut Frímannsdóttir, landsliðskona í karate og íþróttakona Mosfellsbæjar, kemur til liðs við deildina í vetur og mun sjá um afreksæfingar auk hluta æfinga hjá byrjendum og yngri framhaldsiðkendum. Yfirþjálfari deildarinnar er Willem C. Verheul, 2. dan. Allar æfingar fara fram í nýjum bardagasal Aftureldingar í íþróttamiðstöðinni við Varmá fyrir utan byrjendaæfingar fullorðinna sem fara fram í Egilshöll.
Framundan á árinu er fjöldi spennandi móta og æfingabúða. Iðkendum í afrekshóp býðst jafnframt að fara í keppnisferð til Skotlands í október og til Malmö í apríl. Þá mun karatedeildin í samstarfi við Fjölni bjóða uppá æfingamót með Steven Morris í febrúar.
Fyrsti viðburður vetrarins verður á Akranesi helgina 4. – 5. September, en þá býðst iðkendum 12 ára og eldri að taka þátt í æfingabúðunum „Ærslagangur“ á vegum KAK, Karatedeildar Akraness. Nokkrir iðkendur frá Aftureldingu fóru til Akraness í fyrra og heppnaðist sú ferð sérstaklega vel. Öll aðstaða og skipulag var til fyrirmyndar og krakkarnir skemmtu sér konunglega.
Karatedeildin hvetur unga jafnt sem aldna til að prófa karate og skella sér í byrjendatíma. Það er aldrei of seint að byrja að æfa þessa skemmtilegu íþrótt, sem felur svo margt í sér; sjálfsvörn, bardagatækni, þrek, jafnvægi, snerpu, liðleika og síðast en ekki síst þjálfun fyrir hugann.
Ekki hika við að hafa samband á netfangið karate@afturelding.is ef þið hafið einhverjar spurningar, en einnig er hægt að varpa þeim fram á fésbókarsíðu deildarinnar: https://www.facebook.com/KaratedeildAftureldingar
ATH! Ganga þarf frá skráningu / greiðslu æfingagjalda allra iðkenda í NORA, skráningarkerfi Aftureldingar, í síðasta lagi 21. september.