Þórður Jökull Henrysson í karatedeild Aftureldingar tók þátt í tveim erlendum mótum í september síðastliðnum.
Gladsaxe karate cup
Helgina 10-11. september fór fram opna bikarmótið Gladsaxe Cup í Kaupmannahöfn. 639 keppendur frá 3 þjóðum tóku þátt. Þórður tók þátt fyrir hönd Aftureldingar í mótinu, og keppti í tveim flokkum, kata karla fullorðinna – erfiðari flokkur (frá 16 ára) og kata karla opinn flokkur (frá 14 ára). Margir ungir landsliðsmenn Dana í kata tóku þátt í mótinu en það er notað til undirbúnings fyrir stærri mót haustsins, því mátti búast við harðri keppni.
- Í kata karla fullorðinna voru 15 keppendur og keppt var í þrem umferðum. Þórður var hæstur allra í öllum umferðum og vann Huga Halldórsson úr KFR örugglega í úrslitum með 1,4 stiga mun.
- Í opnum flokki voru 33 keppendur og keppt var í fjórum umferðum. Aftur var Þórður hæstur og keppti til úrslita á móti landsliðsmanninum danska David Veistrup og vann Þórður hann nokkuð örugglega með 0,26 stiga mun.
Heildar úrslit mótsins má finna hér.
Smáþjóðamót í Liechtenstein
Dagana 23.-25. september var haldið 8. Smáþjóðamótið í karate, að þessu sinni í Liechtenstein. 381 keppandi frá 8 smáþjóðum tóku þátt. Þórður tók þátt fyrir hönd landsliðs Íslands og keppti í tveim flokkum, kata karla U21 og kata karla fullorðinna (16 ára og eldri).
- Í kata karla U21 voru 7 keppendur frá 3 þjóðum og keppt var í tveim umferðum. Þórður var hæstur allra eftir fyrstu umferðina og keppti því til úrslita á móti landsliðsmanninum Adam Orestis frá Kýpur og vann Þórður örugglega með 1,06 stiga mun.
- Í kata karla fullorðinna voru 15 keppendur frá 6 þjóðum og keppt var í þrem umferðum. Þórður vann fyrstu tvær umferðirnar og keppti því til úrslita á móti landsliðsmanninum Stavros Charalambides frá Kýpur og vann Þórður örugglega með 0,68 stiga mun.
Heildar úrslit mótsins má finna hér.
Frábær árangur hjá landsliðsmanninum unga!