2-0 sigur á Fjölni í lokaleiknum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrir leikinn var ljóst að möguleikar Aftureldingar á að komast í úrslitakeppnina voru úr sögunni en Fjölnir eygði enn von að komast uppfyrir Augnablik og í þriðja sætið. Leikurinn hófst nokkuð fjörlega og var ljóst að bæði lið voru ágætlega stemmd. Afturelding byrjaði þó betur og voru stelpurnar okkar ákveðnar í að hefna fyrir grátlegt tap á heimavelli fyrr í sumar.

Fjölnir átti þó fyrsta hættulega færi leiksins þegar sóknarmaður þeirra átti laglegt skot frá vítateigshorni sem small í þverslánni og okkar stúlkur sluppu með skrekkinn. En fyrsta mark leiksins kom rétt fyrir hlé þegar Valdís Björg átti laglega stungu innfyrir vörn heimaliðins á Kristínu Þóru sem vann kapphlaup við markmanninn og úr erfiðri stöðu uppvið endamark náði Kristín að leggja boltann í netið með þó örlítilli snertingu varnarmanns sem fær markið skráð á sig.

Í síðari hálfleik var áfram hart barist en vörn Aftureldingar stóð af sér allar atlögur Fjölnis. Um miðjan hálfleikinn dró svo aftur til tíðinda þegar Elena tók hornspyrnu og Tinna Björk var þar sterkust allra í vítateignum og mokaði boltanum í netið án þess að heimamenn fengju rönd við reist.

Það sem eftir lifði leiks pressuðu Fjölniskonur nokkuð en Mosfellingar áttu hættulegar skyndisóknir en hvorugu liðinu tókst að skora og úrslitin 2-0 fyrir Aftureldingu.

Afturelding lýkur því leik í sjötta sæti deildarinnar og vill knattspyrnudeild þakka leikmönnum og þjálfurum, sem og öllum þeim sjálfboðaliðum sem hafa lagt hönd á plóg í sumar fyrir sumarið. Áfram Afturelding !