2.flokkur: Strákarnir í stuði, stelpurnar úr leik

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Eftir rólega byrjun eru strákarnir komnir á gott skrið en þeir unnu afar öruggan sigur á Dalvík/Reyni á Varmárvelli á sunnudag 6-0 þar sem Ægir Örn Snorrason skoraði þrennu, Valgeir Steinn Runólfsson tvö og Sindri fyrirliði Snær Ólafsson gerði sjaldséð mark. Þar með hafa þeir landað fjórum sigrum í röð og ekki fengið á sig mark í 270 mínútur.

Strákarnir mátuðu toppsætið í riðlinum í smástund en máttu svo sjá á eftir Sindramönnum frá Hornafirði í efsta sætið. Afturelding mætir einmitt Sindra á Varmárvelli um næstu helgi í toppslag.

Stelpurnar sigla lygnan sjó um miðjann sinn riðil eftir jafntefli við Selfoss í síðustu viku en þær taka á móti Gróttu á fimmtudag. Þær mættu hinsvegar öflugu liði Vals/ÍR í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á mánudag og máttu sætta sig við tap, 3-2 eftir framlengdan leik.

Guðrún Ýr Eyfjörð og Valdís Björg Friðriksdóttir komu okkar stelpum í 2-0 í fyrri hálfleik en vel mannað og reynslumikið lið Vals/ÍR kom til baka í seinni hálfleik undir stjórn Hildar Antonsdóttur sem kom heimastúlkum á bragðið með marki úr aukaspyrnu. Þær náðu svo að jafna fyrir leikslok og varð því að framlengja leikinn og þar reyndust Valsstúlkur sterkari og skoruðu sigurmarkið og úrslitin því 3-2.

Afturelding stillti upp ungu liði skipað m.a. stúlkum úr þriðja flokki en heimamenn mættu með þaulvana meistaraflokks- og landsliðsmenn í mörgum stöðum og sigla því áfram í 8-liða úrslit.  Þetta fer hinsvegar klárlega í reynslubankann og styrkir stelpurnar okkar í verkefnum framtíðarinnar.