Áfram í bikarnum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrirfram var líklega búist við öruggum sigri okkar manna gegn Skínanda sem er venslafélag Stjörnunnar í Garðabæ og að mestu skipað leikmönnum 2.flokks.

En ungu mennirnir úr Garðabænum mættu af miklum krafti í leikinn og gáfu fá færi á sér. Markalaust var í hálfleik og frekar tíðindalítið en smám saman þyngdust sóknarlotur Aftureldingar þar til loks vörn gestanna lét undan.

Wentzel Steinarr tók þá hornspyrnu frá hægri og sendi hárnákvæmann snúningsbolta á fjærstöng þar sem Andri Hrafn Sigurðsson kom á ferðinni og skoraði með þrumuskalla.

Afturelding átti nokkrar hættulegar sóknir eftir þetta en vantaði aðeins uppá nákvæmni í lokasendingum þar til í lok leiks þegar Valgeir Steinn Runólfsson batt endahnút á frábæra sókn og gulltryggði sigurinn.

Skínandadrengir eiga mikið hrós skilið fyrir vasklega framgöngu en okkar menn voru eitthvað lengi í gang. Að tveimur laglegum mörkum undanskildum bar annars helst til tíðinda að Arnór Breki Ásþórsson fór meiddur af velli snemma leiks en hann hefur verið líflegur í upphafi móts sem og á undirbúningstímabilinu.

Dregið verður í næstu umferð bikarsins á morgun fimmtudag.