Afturelding vann Keflavík

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Bæði lið komu ákveðin til leiks, Keflavík úr sterkum sigurleik gegn grönnum sínum í Grindavík en Afturelding hafði unnið Gróttu 10-1. Var því búist við áhugaverðum og jöfnum leik.

Fyrsta hálftímann eða svo var hinsvegar nánast aðeins eitt lið á vellinum. Afturelding blés strax til sóknar og réði lögum og lofum framanaf leik og hefði átt að hafa eitthvað meira uppúr krafsinu en raunin varð. Keflavík stóð af sér storminn og komst betur inní leikinn þegar leið á. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik þrátt fyrir nokkrar álitlegar sóknir og staðan því 0-0 í leikhléi.

Síðari hálfleikur var aðeins jafnari en Afturelding hélt þó frumkvæðinu. Loks eftir 70 mínútna leik kom langþráð mark þegar Elena Brynjarsdóttir lék laglega í gegnum varnarmúr Keflavíkur og átti hörkuskot í stöng og Sandra Dögg Björgvinsdóttir var þar fyrst að átta sig og setti frákastið í markið og Afturelding komin með 1-0 forystu.

Afturelding hélt forystunni svo allt til loka þrátt fyrir nokkrar prýðistilraunir gestanna til að jafna og annar sigurinn í röð í höfn hjá heimaliðinu sem er í öðru sæti B-riðils eftir þrjá leiki en Keflavík er í fimmta sæti. Það lítur hinsvegar út fyrir jafna baráttu í sumar því fimm efstu liðin eru öll með sex stig og skilur því aðeins markamunur að.