Alejandro Zambrano semur á ný við Aftureldingu

Ungmennafélagið AftureldingKnattspyrna

Spænski miðjumaðurinn Alejandro Zambrano hefur samið við Aftureldingu um að leika með liðinu í Inkasso-deildinni næsta sumar.  Hinn 28 ára gamli Alejandro spilaði með Aftureldingu lokakaflann á síðasta tímabili og hjálpaði liðinu að forðast fall og enda í 8. sæti í Inkasso-deildinni.

Alejandro hefur lengst af á ferli sínum spilað með uppeldisfélaginu Recreativo Huelva. Alejandro spilaði með Recreativo í næstefstu deild á Spáni tímabilið 2011/2012 en síðan þá hefur hann leikið yfir 170 leiki í C-deildinni á Spáni.  Auk Recreativo hefur hann spilað með Villarreal B, Sporting Gijon B, San Roque Lepe og Don Benito.

,,Alejandro var hjá Aftureldingu í nokkrar vikur undir lok síðasta tímabils og þá fór ekki á milli mála að um er að ræða öflugan leikmann. Alejandro féll vel inn í leikmannahópinn og það er mikið fagnaðarefni að hann ætli að spila áfram í Mosfellsbæ á næsta tímabili,“ segir Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu.

Ánægja var með frammistöðu Alejandro með Aftureldingu í þeim leikjum sem hann spilaði á síðasta tímabili og félagið bindur miklar vonir við hann fyrir næsta sumar. Alejandro er væntanlegur í Mosfellsbæinn í febrúar næstkomandi.