Baráttuglaðar Aftureldingarstúlkur mættu Blikum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn var varla hafinn þegar boltinn lak í gegnum vörnina og í markið hjá Aftureldingu og var það hin unga Aldís Kara Lúðvíksdóttir sem skoraði. Varla komin mínúta á leikklukkuna og ekki besta byrjun sem hægt var að hugsa sér. Það tók nokkra stund fyrir heimastúlkur að jafna sig og Breiðablik gekk á lagið og skoraði annað mark eftir tæpar 20 mínútur og var þar á ferðinni Rakel Hönnudóttir. Staðan orðin 0-2 og farið að fara um áhorfendur.

En Afturelding er með alvöru lið og stelpurnar þjöppuðu sér saman og náðu að vinna sig inní leikinn. Það sem eftir lifði leiks var jafnræði með liðunum og á köflum átti Afturelding virkilega góða spretti og setti fína pressu á Breiðablik. Um miðjan seinni hálfleik áttu Blikar þó fína skyndisókn og skoruðu sitt þriðja mark og var þar á ferðinni Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Urðu það lokaúrslit og Breiðablik er því áfram efst í deildinni með fullt hús ásamt Stjörnunni.

Afturelding átti alveg prýðisleik í dag og hefði vel getað fengið eitthvað út úr leiknum. Það reyndist erfitt að gefa mark svona snemma leiks og e.t.v. var það það atvik sem mest áhrif hafði á úrslitin. Breiðablik er vissulega með firnasterkt lið og var talið sigurstranglegra fyrir leik en þriggja marka sigur áttu þær ekki skilið miðað við gang leiksins.

Baráttan og leikgleðin var í fyrirrúmi hjá okkar stelpum og allar lögðu þær sig 100% í verkefnið. Megan Link lék sinn fyrsta leik í marki og stóð sig vel eins og allir leikmenn liðsins. Lára Kristín, Sandra og Marcia voru mjög góðar og Telma alveg frábær en fremst meðal jafningja var þó líklega Jenna Roncarati sem átti hörkuleik í vörninni og er valin maður leiksins að þessu sinni. Það var þó klárlega liðsheildin sem skaraði framúr og frábært að fylgjast með hversu samheldinn og öflugur hópurinn er hjá stelpunum.