Eftir nokkuð rólega byrjun unnu okkar stúlkur sig smám saman inní leikinn og loks kom að því að ísinn var brotinn eftir nokkrar hættulegar sóknir. Þar var að verki Kristín Þóra Birgisdóttir leikmaður 4.flokks. Snædís Guðrún Guðmundsdóttir sem átti stjörnuleik skoraði svo þrjú mörk í röð og staðan því 4-0 fyrir Aftureldingu í hálfleik.
Í seinni hálfleik bætti Kristín Þóra við tveimur mörkum og sigurinn öruggur þrátt fyrir að Stjarnan skoraði eitt mark í lokin úr vítaspyrnu. Kristín Þóra og Snædís skoruðu því sitthvora þrennuna en allt liðið stóð sig mjög vel. Valdís Björg Friðriksdóttir sem hefur skorað sjö mörk í bikarnum hingað til tók pásu í markaskorun en lagði í staðinn upp fimm mörk í leiknum.
Þetta er annar sterki útisigur stelpnanna í bikarkeppninni en í 16-liða úrslitum unnu þær ÍA á Akranesi 4-3 í gríðarspennandi leik þar sem þær léku 10 mestan leikinn vegna meiðsla og veikinda. Þar skoraði Valdís Björg þrennu og Eydís Embla Lúðvíksdóttir eitt mark.
Í undankeppni unnu þær Gróttu 9-0 þar sem Valdís Björg skoraði fjögur mörk, Eydís Embla tvö, og þær María Ísabella Arnardóttir, Snædís Guðrún Guðmundsdóttir og Hildur Ýr Þórðardóttir eitt mark hver.
Undanúrslitin fara fram 21.júlí næstkomandi en ekki er komið í ljós hver mótherji Aftureldingar verður.