Mikilvægur sigur hjá Aftureldingu í Pepsideildinni

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það mátti búast við hörkuleik enda mikilvægt fyrir bæði lið að dragast ekki afturúr í deildinni. KR stúlkur komu mjög ákveðnar til leiks og létu finna vel fyrir sér í upphafi leiksins en okkar stelpur tóku á móti og gáfu ekkert eftir. Það voru ekki mörg opin færi í fyrri hálfleik en Kristrún Halla kom þó boltanum í mark KR en línuvörður flaggaði og taldi boltann hafa farið útfyrir endamörk á leið sinni fyrir markið.

Í síðari hálfleik opnaðist leikurinn aðeins og stuttu eftir hlé skoraði Carla Lee laglegt mark þegar hún fékk boltann í teignum, sneri skemmtilega af sér varnarmann og lagði boltann í markhornið og staðan orðin 1-0. KR reyndi að jafna leikinn og náði nokkrum ágætum sprettum en Afturelding varðist vel og átti nokkur hættuleg upphlaup sem minnstu munaði að meira yrði úr.

En úrslitin urðu 1-0 og þar með lyfta okkar stelpur sér uppfyrir KR og eru nú í námunda við FH og Selfoss í sætunum þar fyrir ofan. Það stefnir því allt í spennandi vikur framundan fyrir fótboltaáhugamenn í Mosfellsbænum.

Erica Henderson og Diljá Ólafsdóttir áttu báðar mjög góðan leik í dag og reyndar má segja að allir leikmenn Aftureldingar hafi skilað sínu dagsverki með sóma. Besti maður liðsins og vallarins var þó án efa Lára Kristín Pedersen sem átti frábæran dag og sýndi mikla yfirvegun í sínum aðgerðum á miðjunni.