Frábær sigur á ÍA á Akranesi í Pepsideildinni

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það var vitað að allt annað en sigur í þessum leik myndi gera stöðu liðsins í deildinni býsna erfiða og það fór heldur ekkert á milli mála þegar leikurinn hófst hvort liðið var betur stemmt.

Afturelding byrjaði af krafti og minnstu munaði að Sigríður Þóra Birgisdóttir næði að setja Courtney Conrad eina í gegn strax á annarri mínútu. Helen Lynskey átti þrumuskot að marki tveimur mínútum síðar og örstuttu seinna átti Valdís Björg Friðriksdóttir stungusendingu innfyrir á Courtney sem var hársbreidd frá að nýta sér hana.

Það lá því nánast mark í loftinu og það kom eftir átta mínutur þegar Heiðrún Sunna Sigurðardóttir vann boltann á miðjunni, gaf á Kristínu Ösp Sigurðardóttur sem sendi á Courtney sem átti svo nákvæma sendingu innfyrir á Valdísi sem þakkaði fyrir sig og setti boltann laglega framhjá Ástu Vigdísi í marki ÍA. Sóknin afar glæsileg og boltinn látinn ganga með einni sendingu frá miðlínu og í markið.

Skagamenn voru ekki komnir í gang og lítil hætta af þeirra aðgerðum en eftir Afturelding hélt áfram að pressa. Sigga átti skot yfir eftir hornspyrnu eftir tæpar 20 mínútur og stuttu síðar munaði minnstu að Helen næði skalla að marki eftir góða fyrirgjöf frá Courtney.

Fyrsta færi Skagastúlkna kom eftir hálftíma leik en sóknarmaður þeirra náði ekki valdi á boltanum í góðu færi eftir hættulega fyrirgjöf. Stuttu síðar átti Valdís svo stungu í gegn á Courtney en Ásta varði vel og síðan reyndi Heiðrún langskot en náði ekki að trufla Ástu í markinu. Helen tók svo aukaspyrnu af löngu færi og reyndist það mikið þrumuskot en beint á Ástu.

Staðan 1-0 fyrir Aftureldingu í hálfleik og vantaði ekki mikið uppá að mörkin hefðu getað orðið fleiri hjá okkar stúlkum.

ÍA átti fyrsta færi seinni hálfleiks með skoti yfir og fyrstu mínúturnar virtist Skaginn vera að sækja í sig veðrið. En Afturelding svaraði að bragði og Heiðrún tók mikinn sprett í átt að vítateig Akraness, sendi á Helen sem skaust framhjá varnarmanni og vippaði laglega yfir Ástu í markinu sem reyndi sitt besta til að bjarga en aðstoðardómarinn sá boltann inni og markið stóð, 2-0 fyrir Aftureldingu.

Þriðja markið kom svo innan tíðar þegar Helen kom með langa sendingu fram á Courtney sem lyfti boltanum yfir vörn ÍA á Stefaníu Valdimarsdóttur sem tók hann viðstöðulaust í fjærhornið óverjandi og staðan orðin vænleg fyrir Aftureldingu, 3-0. Stuttu síðar var reyndar Heiðrún rekin af velli fyrir að slá til andstæðings og var lítið við því að gera en hugsanlega hefði dómarinn mátt dæma brot á leikmann ÍA augnabliki fyrr þegar sú lét mikið fyrir sér fara í návígjum við okkar leikmenn.

Skaginn fékk tvö þokkaleg færi eftir þetta en Aftureldingarliðið sat rólega til baka og náði áttum einum leikmanni færri. Síðustu mínúturnar náðu stelpurnar svo aftur yfirhöndinni, Courtney komst í dauðafæri eftir góða aukaspyrnu frá Hrefnu Guðrúnu Pétursdóttur en skaut framhjá, Stefanía átti skot í hliðarnet úr þröngu færi og Courtney slapp svo í gegn en skaut framhjá úr fyrirtaks færi. Úrslit leiksins urðu 3-0 fyrir Aftureldingu sem þar með fer uppí 8.sæti deildarinnar með 10 stig, einu meira en FH og talsvert betra markahlutfall. Skaginn situr eftir á botninum með 1 stig og þarf á miklu kraftaverki að halda til að halda sæti sínu í deildinni og líklega verður að segjast að þeirra bíði 1.deildin að ári.

Afturelding var vel að sigrinum komin og var betri aðilinn í leiknum allan tímann. Mist var góð og yfirveguð í markinu og varnarlínan mjög öflug. Inga Dís og Steinunn voru mjög góðar og þær Lilja Dögg og Hrefna Guðrún áttu báðar óaðfinnanlegan leik. Heiðrún Sunna var frábær og réði lögum og lofum á miðri miðjunni og Kristín Ösp átti flottan leik. Helen skoraði laglegt mark og var sífellt ógnandi og Sigga var sömuleiðis óþreytandi allan leikinn og gefur aldrei tommu eftir. Valdís nýtti sér tækifærið í byrjunarliðinu vel, skoraði laglegt mark og kom mikið við sögu í sóknarleiknum og Courtney var í miklu stuði, lagði upp tvö mörk og hefði með smáheppni getað skorað sjálf og jafnvel oftar en einu sinni. Stefanía kom svo öflug inná í síðari hálfleik og skoraði fallegt mark.

Skagaliðið er sýnd veiði en ekki gefin og þar um borð eru nokkrir mjög frambærilegir leikmenn. Munurinn á 1.deild og Pepsideildinni er þó talsverður og þær setja þetta sumar í reynslubankann og mæta eflaust fyrr en varir í efstu deild á ný.

Næst tökum við á móti Breiðablik á N1 vellinum að Varmá á mánudaginn kemur.