Hörkuleikur á Varmárvelli gegn Val

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrirfram var líklega gert ráð fyrir erfiðum leik fyrir Aftureldingu en Valur vann stórsigur í leik liðanna í Pepsideildinni á dögunum auk þess sem Mist Elíasdóttir markmaður var í leikbanni. Ekki fékkst undanþága frá framkvæmdastjóra KSÍ fyrir félagaskiptum varamarkmanns þrátt fyrir að hann hafi til þess skýra heimild í lögum sambandsins og því var það bakvörðurinn Inga Dís Júlíusdóttir sem tók að sér að verja mark liðsins í leiknum.

Um leið og leikurinn hófst var ljóst að heimaliðið var staðráðið í að láta ekki úrslitin úr Egilshöll endurtaka sig. Vörnin hélt vel og miðja og sókn gáfu gestunum engan frið til að byggja upp sitt spil. Svava Rós Guðmundsdóttir átti skot yfir úr þröngu færi snemma leiks og Valur fékk tvær eða þrjár hornspyrnur en náði ekki að skapa hættu uppvið mark Aftureldingar.

Eftir rúman stundarfjórðun dró svo til tíðinda. Helen Lynskey var stöðvuð við vítateigslínu og aukaspyrna dæmd á Val. Helen tók spyrnuna sjálf og Þórdís í marki Vals náði ekki að halda föstu skotinu og Snædís Guðrún Guðmundsdóttir fylgdi vel á eftir og skoraði fyrsta mark leiksins, 1-0.

Valur freistaði þess að jafna metin og stuttu seinni skall boltinn í þverslá eftir langskot Gígju Valgerðar. Eftir 25 mínútna leik fékk Elín Metta boltann á miðjum vallarhelmingi Aftureldingar og lyfti honum yfir varnarlínu okkar þar sem Svava Rós kom á ferðinni og skoraði jöfnunarmarkið, 1-1.

Afturelding hélt áfram fínum leik og Sigríður Þóra komst í ágætt færi en náði ekki nægilega góðu skoti og þá átti Helen skot framhjá úr aukaspyrnu. Elín Metta átti langskot hinu megin en svo dró til tíðinda eftir 36 mínútur þegar Afturelding komst aftur yfir með afar laglegu marki. Helen vann  boltann með harðfylgni á miðjunni og kom honum á Snædísi sem sendi knöttinn framá við. Þar tók Valdís boltann vel niður, gaf á Kristrúnu óvaldaða sem fann Siggu með hnitmiðaðri stungu. Sigga setti boltann svo á yfirvegaðan hátt framhjá Þórdísi í marki Vals og staðan orðin 2-1 fyrir Aftureldingu.

Rétt fyrir hlé komst svo Sigga í fínt færi eftir góða sendingu frá Lilju Dögg en Þórdís sá við henni. Undir lok hálfleiksins þustu svo Valskonur í sókn, Gígja Valgerður átti hættulega fyrirgjöf sem Hrefna Guðrún náði að hreinsa frá en Dóra María Lárusdóttir náði til boltans rétt utan teigs og lagði hann í bláhornið án þess að Inga Dögg ætti möguleika á að verja. Staðan í leikhléi því 2-2 í fjörugum leik.

Í síðari hálfleik náði Valur eilítið betri tökum á leiknum án þess að skapa sér hættuleg færi. Þegar þær komust nálægt marki Aftureldingar voru okkur stelpur iðulega tilbúnar til að stöðvar sóknaraðgerðir Vals og Inga Dögg greip nokkrum sinnum inní þegar draga virtist ætla til tíðinda. En eftir 55 mínútur datt boltinn fyrir Svövu Rós óvaldaða í teignum og hún þrumaði honum í netið og Valur náði þar með forystunni. Og ekki löngu síðar spiluðu þær Gígja Valgerður og Dóra María upp hægri kantinn og Dóra María fann Elínu Mettu óvaldaða í teignum og var þá ekki að sökum að spyrja, Valur komin í tveggja marka forystu og bikardraumurinn að renna úr greipum Aftureldingar.
 
Það sem eftir lifði leiks áttu bæði lið ágæta spretti en fleiri urðu mörkin ekki. Ánægjulegt var að sjá Söndru Dögg Björgvinsdóttur koma inná um miðjan síðari hálfleik en þetta er fyrsti leikur Söndru í sumar og er vonandi að hún sé nú að ná sér að fullu af meiðslum. Sandra mun án nokkurs vafa styrkja liðið mikið enda einn okkar öflugasti og reynslumesti leikmaður.

Eins og oft áður var það liðsheildin sem var okkar aðalsmerki í þessum leik sem var ágætlega leikinn hjá stelpunum. Þær náðu tvívegis forystunni gegn sterku Valsliði og börðust vel frá upphafi til enda leiks. Inga Dögg Júlíusdóttir fær sérstök hugrekkisverðlaun fyrir að standa vaktina vel í marki Aftureldingar og Snædís Guðrún fær klapp fyrir fyrsta meistaraflokksmarkið sitt. Amy og Hrefna voru öflugar í miðri vörninni og Lilja átti einnig góðan leik sem og Sigga sem skoraði gott mark og átti fleiri góðar tilraunir.

Lið Aftureldingar:
Inga Dögg
Eva – Amy – Hrefna – Brynja
Kristrún – Lilja (Sandra 69)- Dísa
Helen – Valdís (Kristín Þóra 71)- Sigga (Stefanía 85)