Afturelding/Fram og Keiluhöllin hafa gert með sér samstarfsamning og mun Keiluhöllin styðja við uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar í Mosfellsbæ og í Úlfarsárdal. Þetta er gleðitíðindi fyrir sameinað lið þessara tveggja félaga sem leikur í 2. deild kvenna og er á toppnum þegar deildarkeppnin er rétt um hálfnuð.
„Fyrir okkur er það gleðiefni að styðja við bakið á íþróttastarfi í okkar nánasta nágrenni. Sameinað lið Aftureldingar og Fram er spennandi samstarf sem við viljum sérstaklega styðja, enda er kvennaknattspyrna á mikillri siglingu. Það ber að styðja það og efla. Nú vonum við bara að stelpurnar okkar nái að komast upp um deild og geri allt vitlaust næstu árin,“ segir Sigmar Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Keiluhallarinnar og Shak&Pizza í Egilshöll.
„Við í Aftureldingu/Fram erum gríðarlega ánægð með þetta samstarf, Sigmar og hans starfsfólk hjá Keiluhöllinni hafa sýnt okkur frábært viðmót allt frá því við settum okkur í samband við þau um mögulegt samstarf. Það er virðingavert þegar fyrirtæki í nágrenni bæjarfélagsins styðji við kvennaknattspyrnuna í Mosfellsbæ og Úlfarsárdal, það mættu fleiri fyrirtæki taka sér Keiluhöllina til fyrirmyndar. Við munum bera merki Keiluhallarinnar með stolti og vonandi um leið gera fyrirtækið stolt af því að styðja við öflugt starf deildarinnar innan sem utan vallar. Við hvetjum alla velunnara Aftureldingar/Fram að versla við Keiluhöllina og styrktaraðila deildarinnar,“ kemur fram í yfirlýsingu frá meistaraflokksráði Aftureldingar/Fram.
Afturelding/Fram er í efsta sæti 2. deildar kvenna í knattspyrnu með 21 stig úr átta leikjum. Næsti leikur liðsins fer fram laugardaginn 15. júlí þegar liðið heimsækir Völsung á Húsavík.
Mynd: F.v. Sigrún Gunndís Harðardóttir, Sigmar Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Keiluhallarinnar, Sigurbjartur Sigurjónsson formaður Aftureldingar/Fram og Margrét Regína Grétarsdóttir.