Lengjubikarfréttir af meistaraflokkunum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Strákarnir okkar hafa þegar leikið fimm leiki af sjö í A-deildinni og hafa mætt sterkum liðum enda að spila uppfyrir sig ef svo má að orði komast. Eftir grátlegt tap gegn KR þar sem vafasöm vítaspyrna í uppbótartíma réði úrslitum mættu strákarnir Fram í Úlfarsárdal fyrir rúmri viku og biðu þar 3-1 ósigur gegn Pepsideildarliði Bjarna Guðjónssonar. Elvar Ingi Vignisson skoraði mark okkar manna.

Á laugardaginn var tóku strákarnir á móti BÍ/Bolungarvík í Akraneshöllinni þar sem heimaleikirnir okkar hafa farið fram í fjarveru fjölnota íþróttahúss í Mosfellsbæ. Leikurinn var hin besta skemmtun og það var Valgeir Steinn Runólfsson sem kom Aftureldingu yfir áður en Vestfirðingar náðu að jafna og stóð jafnt í hálfleik.

Í síðari hálfleik náði BÍ/Bolungarvík forystu þegar langt var liðið á leikinn en Alexander Aron Davorsson jafnaði metin áður en Einar Marteinsson mætti með sigurmarkið undir lok leiks. Sigur 3-2 staðreynd og fyrstu stigin í hús.

Afturelding mætir Skagamönnum um næstu helgi í Akraneshöllinni og lýkur svo leik gegn Breiðablik í Fífunni í apríl.

Stelpurnar okkar hafa einnig hafið leik en þær taka þátt í B-deild Lengjubikarsins og mættu HK/Víking í fyrsta leik á föstudag. Bjarki Már Sverrisson yfirþjálfari stýrði liðinu í þeim leik og honum til aðstoðar var Bill Puckett þjálfari 2. og 3.flokks kvenna en frétta er að vænta af nýjum þjálfara meistaraflokks kvenna á næstunni.

Leikurinn var jafn og spennandi en HK/Víkingur nýtti sér sitt fyrsta færi og náði forystunni í leiknum um miðjan fyrri hálfleik. Sigríður Þóra Birgisdóttir jafnaði metin með laglegu marki og reyndar skoraði hún tvívegis í fyrri hálfleik en annað markið var dæmt af vegna rangstöðu. Snemma í síðari hálfleik varð mikið uppistand í markteig Aftureldingar og einhvernveginn endaði boltinn í netinu sem reyndist sigurmark HK/Víkings.

Afturelding átti ágæta spretti í leiknum og stelpurnar eru líklega frekar óhressar með að hafa ekki náð a.m.k. jafntefli. HK/Víkingur er reyndar með ágætt lið og eiga eflaust eftir að gera góða atlögu að því að endurheimta Pepsideildar sæti sitt en þessi lið áttu einmitt í eftirminnilegri baráttu um sæti í deildinni síðasta haust.