Liverpool skólinn að hefjast

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Samstarfið miðar við að haldinn sé knattspyrnuskóli, fyrir 6 – 14 ára börn hvaðanæva af landinu, í Mosfellsbæ næstu árin. Liverpool starfrækir knattspyrnuskóla víða um heim og leggur mikla áherslu á þjálfun barna og unglinga, en barna- og unglingastarf Liverpool hefur alið af sér heimsklassa knattspyrnumenn eins og Steven Gerrard.

Fyrsti skólinn var starfræktur á Tungubökkum í Mosfellsbæ í fyrrasumar og þá voru 144 börn á aldrinum 6 – 12 ára þátttakendur í skólanum. Skemmst er frá því að segja að samstarfið tókst afar vel og þjálfararnir tíu sem komu frá Liverpool International Football Academy höfðu á orði að hafa hvergi í heiminum komið þar sem skipulag hafi verið jafn gott og umgjörð og aðbúnaður jafn glæsilegur.

Dagana 7. – 9. júní n.k. (fimmtudagur til laugardags) verður leikurinn endurtekinn en að þessu sinni eru þátttakendur 180 talsins, á aldrinum 6 – 14 ára. Tólf þjálfarar koma frá unglingaakademíu Liverpool F.C. og þjálfa í knattspyrnuskóla Liverpool og Aftureldingar.  Einn yfirþjálfari og ellefu þjálfarar sem verða hver með u.þ.b. 16 barna æfingahóp.  Einn hópurinn er markmannsæfingahópur.   Þjálfarar Aftureldingar og fleiri félaga verða Liverpool þjálfurunum til aðstoðar og sjá um að túlka fyrir krakkana.

Dagskrá skólans:
•    9.45 (9.30)        Mæting (og nafnakall  í æfingahópa fyrsta daginn 9.30)
•    10.00 – 11.15    Fyrsta lota
•    11.15 – 11.30    Nestistími
•    11.30 – 12.30    Önnur lota
•    12.30 – 13.15    Matartími
•    13.15 – 14.55    Þriðja lota
•    15.00                Foreldrar ná í börn