Markaregn í hellidembu

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það var bleyta og rigning í Mosfellsbænum þegar Blikastelpur mættu í heimsókn. Þær byrjuðu leikinn betur og á fyrstu mínútu átti Fanndís Friðriksdóttir skot í stöng en Afturelding svaraði með laglegri stungusendingu frá Sigríði Þóru Birgisdóttur inná Courtney Conrad sem lyfti boltanum yfir markmann Blika en sömuleiðis yfir markið.

Eftir aðeins átta mínútur lyfti Fanndís svo boltanum yfir vörn Aftureldingar á Rakel Hönnudóttur sem var á myndbandsupptöku sést að var greinilega rangstæð en aðstoðardómarinn sá ekkert athugavert og Rakel lagði boltann fyrir á Telmu Þrastardóttur sem skoraði fyrsta mark leiksins.

Stefanía Valdimarsdóttir komst svo í gegn eftir stungu frá Siggu en var hársbreidd frá að ná til boltans á undan markmanni en hinu megin kom skömmu síðar ónákvæm sending til baka og Telma slapp í gegn og skoraði 0-2 fyrir Blika. Augnabliki síðar sóttu gestirnir enn og Fanndís átti laglegt skot í stöng og enn syrti í álinn þegar Telma slapp aftir í gegn og ekki að sökum að spyrja, staðan 0-3 og ekki bara veðrið þungbúið í Mosfellsbænum.

Afturelding gafst þó ekki upp, sótti upp hægri kantinn og þar sá Helen Lynskey markmann gestanna framarlega og nýtti sér það með þrumufleyg langt utan af kanti, yfir markmanninn og í fjærhornið – frábært mark og staðan 1-3.

En Adam var ekki lengi í paradís því Fanndís svarað að bragði fyrir Breiðablik þegar hún skoraði með fallegu skoti utan úr teig eftir hornspyrnu. Afturelding átti svo dauðafæri þegar Helen setti aukaspyrnu frá vinstri inná markteig þar sem Hrefna Guðrún Pétursdóttir átti þrumuskalla að marki en markmaður Breiðabliks varði með tilþrifum. Hrefna náði frákastinu en setti boltann í hliðarnetið úr erfiðri stöðu.

Síðasta færi fyrri hálfleiks átti svo Aldís Kara Lúðvíksdóttir en Mist Elíasdóttir varði ágætt skot hennar og staðan 1-4 í hálfleik.

Breiðablik byrjaði síðari hálfleikinn vel, sótti mikið upp kantana og skapaði nokkra hættu með fyrirgjöfum en vörn Aftureldingar var mun ákveðnari eftir hlé og þrátt fyrir nokkra pressu voru gestirnir ekki að fá jafngóð marktækifæri og fyrir hlé.

Eftir um klukkutíma leik tók Helen aukaspyrnu frá vinstri og eftir hamagang í teignum lagði Sigga boltann út á Helen sem spretti í gegnum hóp Blika, tók þríhyrning við Courtney og slapp í gegn og lagði boltann yfirvegað í markhornið og staðan orðin 2-4.  

Í uppbótartíma fékk Helen svo frákast eftir hornspyrnu þar sem hún stóð rétt utan vítateigs og hún setti boltann glæsilega í markhornið óverjandi og allt í einu munaði aðeins einu marki. En það var of lítið eftir á klukkunni og dómari leiksins flautaði til leiksloka skömmu síðar og 3-4 ósigur gegn Breiðablik staðreynd.

Afturelding byrjaði leikinn illa og kannski má segja að leikurinn hafi tapast á fyrsta korterinu. Gegn jafn öflugu liði og Breiðablik sem enn á veika von á Íslandsmeistaratitlinum má ekki sofna á verðinum og það var erfitt að ætla að vinna upp þriggja marka mun sem tókst þó næstum því, þökk sé þrennunni frá Helen og mun betri leik alls liðins í síðari hálfleik.

Þess má til gamans geta að þær systur Kristín Þóra og Halldóra Þóra Birgisdætur komu báðar inná í liði Aftureldingar í kvöld og léku þar með með þriðju systurinni, Sigríði Þóru í fyrsta sinn í Pepsideildarleik.

Lið Aftureldingar:
Mist
Kristrún – Hrefna – Inga Dís – Dagrún (Halldóra 76)
Helen – Kristín Ösp – Sigga
Stefanía (Guðrún Ýr 88) – Valdís (Kristín Þóra 70) – Courtney

Næst mætum við Stjörnunni í Garðabæ eftir tvær vikur en nú verður gert hlé á deildinni vegna landsleikja.