Marsý Dröfn í Aftureldingu/FRAM – Cecilía og Hafrún semja

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Miðjuleikmaðurinn Marsý Dröfn Jónsdóttir hefur gengið til liðs við Aftureldingu/Fram frá uppeldisfélagi sínu Fjölni. Marsý sem leikið hefur með 2.- Og 3.flokk kvenna hjá Fjölni og borið fyrirliðabandið í 3.flokki er fædd árið 2001. Marsý er gífurlega spennandi leikmaður sem hefur fallið vel inn í ungan hóp Aftureldingar/Fram og um leið passar Marsý vel inn í framtíðarplön félagsins.

Þá samdi félagið við tvo gríðarlega efnilega leikmenn félagsins, þær Cecelíu Rún og Hafrúnu Rakel. Cecilía Rán Rúnarsdóttir er einn efnilegasti markvörður landsins, hún er fædd árið 2003 og því á fjórtánda aldursári. Þrátt fyrir ungan aldur tók Cecilía þátt í fimm leikjum félagsins í 2.deild kvenna síðastliðið sumar og þá ætlar félagið henni stærra hlutverk á komandi sumri í 1.deild kvenna. Cecilía hefur tekið þátt í öllum verkefnum u16 ára landsliðs Íslands síðastliðið ár, þá er hún undir styrkri leiðsögn markmannsþjálfarans Þorsteins Magnússonar og er því framtíðin björt hjá þessum unga og upprennandi markverði.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir er fædd árið 2002, hún var á dögunum valin til úrtaksæfinga með u16 ára landsliði Íslands. Hafrún spilaði átta leiki með félaginu í 2.deild kvenna síðastliðið sumar og skoraði eitt mark. Hafrún er fjölhæfur og vinnusamur leikmaður sem spennandi verður að fylgjast með á næstu árum, þá var Hafrún valin efnilegasti leikmaður félagsins á uppskeruhátíð Mosfellsbæjar á dögunum.

Félagið er gríðarlega stolt af því að semja við þessa þrjá ungu og efnilegu leikmenn sem gaman verður að fylgjast með á vellinum í sumar en allar sömdu þær til loka árs 2019.

Áfram Afturelding/Fram!