Mikilvægir útileikir hjá báðum meistaraflokkum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Stelpurnar okkar mæta Þrótti á Valbjarnarvelli kl 17:45 í Pepsideildinni og þurfa svo sannarlega á öllum stigunum að halda. Þróttur situr í neðsta sæti deildarinnar án stiga en liðið er sýnd veiði en ekki gefin enda undir stjórn hinnar reynslumiklu Vöndu Sigurgeirsdóttur. Liðin hafa mæst þrisvar áður í efstu deild og unnið sitthvorn leikinn og gert eitt jafntefli en fyrri leik liðanna í sumar lauk með 2-0 sigri Aftureldingar.

Tveir nýjir leikmenn verða væntanlega í leikmannahópi Aftureldingar í leiknum en Ingunn Haraldsdóttir er komin til liðsins á lánssamningi frá Val og þá hefur Hrefna Guðrún Pétursdóttir gengið til liðs við félagið frá Breiðablik en Hrefna Guðrún er reyndar uppalin hjá Aftureldingu og má segja að hún sé komin heim á ný. Báðar eru stúlkurnar enn gjaldgengar með 2.flokki og eiga fjölmarga landsleiki að baki, Ingunn alls 24 með U19 og U17 og Hrefna Guðrún 6 leiki með U17.

Strákarnir leika svo á Hertzvellinum í Breiðholti gegn ÍR kl 19:00 í 2.deildinni. Eftir tap á heimavelli í síðasta leik er mikilvægt að snúa við blaðinu og halda áfram að safna stigum en Afturelding er nú í þriðja sæti deildarinnar með 25 stig, tveimur stigum meira en gestgjafarnir sem eru í fjórða sæti.

Knattspyrnudeild hvetur Mosfellinga til að skella sér á völlinn og hvetja sitt lið. Þannig væri tilvalið að fylgjast með leiknum hjá stelpunum í Laugardalnum, renna sér svo uppí Breiðholt strax að leik loknum og hvetja strákana áður en stefnan er sett heim í Mosó.

Áfram Afturelding !