Öruggur sigur á Völsungi

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Afturelding byrjaði af krafti og Alexander Aron Davorsson var fljótur að koma sér í færi sem og Elvar Ingi Vignisson sem átti gott skot áður en Sigurpáll Melberg Pálsson minnti á sig með skoti í hliðarnetið eftir laglegan snúning í markteig gestanna.

Gestirnir tóku þá aðeins við sér og áttu tvö, þrjú færi í röð en síðan var komið að okkar mönnum sem fengu aukaspyrnu við vítateigshorn vinstra megin og úr aukaspyrnunni skoraði Alexander Aron með lúmsku skoti í fjærhornið eftir aðeins 12 mínútur.

Afturelding var betri aðilinn það sem eftir lifið hálfleiks og átti fleiri færi en staðan 1-0 í leikhléi.

Síðari hálfleikur hófst með látum, Alli skallaði framhjá og hinu megin komust Húsvíkingar í fínt færi. Alli átti síðan skalla naumlega yfir áður en hann hitti loks á ramman eftir rúmar 60 mínútur þegar hann skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá hægri. Völsungur tók þá við sér og minnkuðu muninn fjórum mínútum seinna en það dugði ekki nema í tvær mínútur eða svo áður en Elli skoraði þriðja mark Aftureldingar eftir skyndisókn og stoðsendingu frá Alla.

Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins og Afturelding sigldi sigrinum heim, 3-1 og liðið nú komið með 10 stig í fimmta sæti deildarinnar.

Alexander Aron Davorsson var áberandi með tvö mörk og stoðsendingu og fær nafnbótina maður leiksins. Fleiri áttu góðan dag og sigurinn var sanngjarn. Mótherjarnir áttu góða spretti og kemur á óvart að sjá þá í neðri hluta deildarinnar en kannski mættu þeir setja meiri kraft í spilið hjá sér og minni í að rífast í dómurunum sem þeim virtist sérlega í nöp við, óverðskuldað að mati fréttaritara.