Selfyssingar reyndust erfiðir

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn hófst með látum þegar sóknarmenn Selfyssinga komust inní fyrstu sendingu heimamanna og gerðust hættulegir á fyrstu augnablikunum en sem betur fer varð ekkert úr. Fyrri hálfleikurinn var ekki nægilega góður af okkar hálfu og tvívegis þurfti að sækja knöttinn í markið, í bæði skiptin eftir mörk frá Guðmundu Brynju Óladóttur og staðan 0-2 í hálfleik. 

Í seinni hálfleik var annað uppá teningnum og Afturelding réð þá ferðinni lengst af án þess þó að ná að skora. Liðið skapaði sér þónokkur þokkaleg færi en fá opin og ekki urðu mörkin fleiri. Besta færið kom þegar Valdís Björg Friðriksdóttir átti skot úr utanverðum teignum sem markmaður Selfyssinga náði að verja með sérlega glæsilegum hætti. En þrátt fyrir mikla pressu í lokin vildi boltinn ekki inn og úrslitin 2-0 sigur gestanna.

Afturelding átti ekki góðan dag í fyrri hálfleik en sýndi á sér aðra hlið eftir hlé. Liðið lék þá ágætlega en uppskar því miður ekkert að þessu sinni. Best okkar stúlkna í dag er valin Eydís Embla Lúðvíksdóttir sem átti fínan leik á miðjunni, sérstaklega eftir hlé þegar hún bauð uppá nokkrar mikilvægar tæklingar og hún fær því nafnbótina maður leiksins.

John Andrews þjálfari var ekki sáttur við leik liðsins fyrir hlé og þótti bæði mörk Selfoss óþarflega ódýr en hann var hinsvegar mjög ánægður með karakter og baráttu liðsins í síðari hálfleik þegar stelpurnar okkar gerðu mikla atlögu að gestunum og hefðum með smá heppni náð að opna leikinn og hefði þá verið spurt að leikslokum.

Næst leikum við gegn FH á þriðjudaginn kemur á heimavelli.