Sigur á KR í Lengjubikarnum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Afturelding hóf leikinn af kappi og eftir fjögurra mínútna leik skoraði Telma Þrastardóttir beint úr aukaspyrnu eftir að brotið var á henni rétt vinstra megin við vítateigshorn. Markmaður KR náði ekki að verja fasta spyrnu Telmu niður við jörð í nærhornið og staðan 1-0. Stuttu seinna komst Sigríður Þóra Birgisdóttir í afbragðsfæri en náði ekki að nýta sér það og byrjunin lofaði góðu hjá okkar stúlkum.

KR náði að jafna með skoti úr aukaspyrnu úr sinni fyrstu sókn og skömmu seinna urðu okkur á mistök í vörninni sem KR nýtti sér og skyndilega var staðan orðin 1-2, óneitanlega heldur gegn gangi leiksins. Og ekki varð útlitið betra þegar dómari leiksins vék Guðný Lenu Jónsdóttur af velli með rautt spjald eftir brot en eftir samtal við línuvörð mátu þeir stöðuna þannig að Guðný hefði verið aftasti varnarmaður þó útlitið úr stúkunni benti ekki til þess.

En marki undir og manni færri eftir aðeins 30 mínútur bitu Mosfellingar í skjaldarrendur og börðust sem hetjur. Eftir 35 mínútur dró aftur til tíðinda þegar Telma slapp innfyrir vörn KR, lék framhjá markverði þeirra og jafnaði leikinn og stóð því jafnt í hálfleik.

Afturelding lék agaðan leik í síðari hálfleik og mátti varla sjá að liðið væri manni færri. Á 53.mínútu var brotið á Telmu inní vítateig og skoraði hún sjálf úr vítaspyrnunni. KR reyndi að leita að jöfnunarmarki en Afturelding varðist vel og gaf fá færi á sér og vann leikinn 3-2.

Telma Þrastardóttir átti afbragðsleik, skoraði þrennu og var sífellt ógnandi en allt liðið skilaði góðu verki og sýndi að það býr mikið í þeim þegar óðum styttist í að alvaran hefjist í Pepsi deildinni í vor.

Mynd: Þórir Gunnarsson.