Stelpurnar með fullt hús stiga í Futsal

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það er skemmst frá því að segja að Afturelding sigldi í gegnum fyrri umferðina með glæsibrag og vann alla þrjá leiki sína. Liðið stendur því vel að vígi fyrir síðari umferðina sem fer fram að Varmá um miðjan desember en í húfi er sæti í úrslitakeppninni í Laugardalshöll eftir áramótin.

Afturelding vann lið Álftanes 4-2, Fjölni 3-1 og Víking frá Ólafsvík 4-3. Tinna Björk Birgisdóttir og Valdís Björg Friðriksdóttir voru á skotskónum fyrir Aftureldingu en Tinna skoraði 5 mörk og Valdís 4. Edda María Karlsdóttir og Guðrún Ýr Eyfjörð gerðu svo sitt hvort markið.

Síðari umferðin fer svo fram sem áður segir að Varmá sunnudaginn 14.desember og eru allir velkomnir á pallana til að fylgjast með en fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Futsal innanhúsknattspyrna sem leikin er á handboltavelli eftir ákveðnum reglum.