Stelpurnar úr leik í bikarnum að þessu sinni.

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik enda Stjarnan núverandi bikarmeistarar og að auki í efsta sæti Pepsideildarinnar með fullt hús stiga. Afturelding sem í gegnum tíðina hefur verið þekkt fyrir sitt flotta uppeldisstarf tefldi fram sérlega ungu liði en fimm leikmenn í byrjunarliðinu léku með 2.flokki í síðasta leik. Ungu stelpurnar áttu þó í fullu tré við besta lið landsins um þessar mundir og fóru óhræddar inní leikinn.

Stjarnan tefldi fram ógnarsterku liði og þar á meðal er töframaðurinn Danka Podovac sem var margra manna maki inná vellinum og skapaði ýmist eða skoraði öll mörk Stjörnunnar. Danka hefur verið óstöðvandi það sem af er tímabilinu og hún hélt sínu striki á Varmárvelli.

Aftureldingu vantaði fjóra lykilmenn en þær ættu allar að vera klárar í næsta leik gegn Þór/KA á laugardaginn. Þrátt fyrir það var jafnræði með liðunum á köflum í leiknum og með örlítið nákvæmari sendingum og yfirvegun á boltanum hefðu okkar stelpur hæglega getað náð betri úrslitum en raunin varð. Stjarnan skoraði tvö mörk fyrir hlé og þrjú eftir hlé og vann sanngjarnan sigur en fimm marka munur var líklega óþarflega stór.

John Andrews þjálfari sagðist eftir leikinn vera stoltur og yfir þeirri ákveðni og baráttugleði sem leikmenn sínir sýna og er fullviss um að það verði góðir tímar þegar meistaraflokkur verður fullskipaður heimastúlkum með sitt hugprúða Aftureldingarhjarta. Hann vildi einnig koma á framfæri þökkum til þeirra stuðningsmanna sem mættu á völlinn en stuðningur áhorfenda skiptir John og stelpurnar virkilega máli.