Stórsigur á KR í Lengjubikarnum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

KR sem leikur í Pepsideildinni í sumar var fyrirfram talið sigurstranglegra en Vesturbæjarliðið fékk hinsvegar óblíðar viðtökur þegar Afturelding náði forystunni strax á fyrstu mínútu leiksins.

Sigríður Þóra og varnarmaður KR eltu þá stungusendingu frá Gunnhildi innfyrir vörnina og undir mikilli pressu setti leikmaður KR boltann yfir eigin markmann og staðan orðin 1-0 fyrir Aftureldingu.

Fyrri hálfleikurinn var annars tíðindalítill, Afturelding beið átekta og lokaði á allar leiðir í gegnum vörnina og KR fann ekki lausnir á því þrátt fyrir að hafa boltann eilítið meira. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var heldur fjörlegri og þegar Kristín Þóra kom inná fóru hlutirnir að gerast en hún ógnaði vörn KR stöðugt með hraða sínum. Fór svo að Kristín skoraði tvívegis með stuttu millibili eftir snarpar skyndisóknir, fyrra markið eftir stungu frá Snjólaugu og það síðara eftir undirbúning Hrefnu Guðrúnar og staða Aftureldingar mjög vænleg.

Afturelding – knattspyrnudeild fridrikgunn@gmail.com

Þrátt fyrir nokkrar tilraunir KR undir lok leiksins tókst þeim ekki að skora og glæsilegur 3-0 sigur Aftureldingar staðreynd. Stelpurnar okkar hafa nánast eingöngu spilað við Pepsideildarlið á undirbúningstímabilinu og frammistaða þeirra í þeim leikjum lofar góðu fyrir sumarið.

Næsti leikur í Lengjubikarnum er gegn Val á miðvikudaginn kemur.