Stórsigur hjá strákunum – fimm í fyrri hálfleik

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það var greinilegt að strákarnir voru vel stemmdir þegar þeir mættu til leiks á N1 völlinn að Varmá og gestirnir fengu heldur betur á kynnast okkar bestu hliðum á fótboltavellinum. Það var hátt pressað og stöðugt út um allan völl og enginn tími gefinn á boltann enda náðu strákarnir strax undirtökunum og eftir fáeinar mínútur var ljóst að stigin skyldu innbyrt.

Eftir nokkrar álitlegar sóknir var ísinn brotinn eftir tíu mínútna leik þegar Helgi Sigurðsson stýrði boltanum í netið eftir hamagang í teignum. Áfram héldu sóknir Aftureldingar og það kom því eins og skrattinn úr sauðaleggnum þegar Hamar jafnaði metin eftir rúmar tuttugu mínútur. Eftir klafs útvið hliðarlínu nálægt miðlínu hrökk boltinn Hvergerðings sem var snöggur að sjá Anton markmann fullframarlega í teignum og lyfti knettinum yfir Anton og í markið. Erfitt að skammast í Tona miðað við hvernig leikurinn var að spilast en staðan orðin 1-1 heldur betur gegn gangi leiksins.

Besta leiðin til að svara er auðvitað með marki og það gerðu okkar menn eftir sérlega snarpa sókn upp vinstri kant og þar var það Birgir Freyr Ragnarsson batt endahnútinn á aðeins mínútu síðar. Einar Marteinsson gerði þriðja markið með skalla og fjórða markið gerði svo Alexander Aron Davorsson eftir enn eina góða sókn. Undir lok fyrri hálfleiks var svo dæmd vítaspyrna sem Alexander setti með fádæma öryggi í markhornið og staðan því 5-1 í hálfleik og var það vel sloppið hjá gestunum sem áttu satt best að segja ekki séns með fullri virðingu fyrir þeim.

Síðari hálfleikur var eins og kannski mátti búast við heldur rólegri og nokkuð tíðindalítill. Afturelding réði ferðinni og gaf fá færi á sér en gestirnir fengu að sjá meira af boltanum en fyrir hlé án þess að mikið yrði úr því. Undir lokin pöntuðu áhorfendur sirkusmark til að klára leikinn með stæl og það tók Axel Lárusson til sín og hamraði boltann í netið af rúmlega tuttugu metra færi og innsiglaði stórsigur Aftureldingar, 6-1.

Lið Aftureldingar spilaði feikilega vel og hvergi veikan blett að finna. Vörnin stóð sig vel og Axel og Þorgeir bakverðir voru mjög áberandi í sóknarleik liðins. Helgi Sigurðsson kemur með mikla reynslu og fagmennsku í spilið framávið og Wentzel, Alli og Maggi voru góðir og láta boltann oft ganga virkilega vel á milli manna undir pressu. Bestur á vellinum og þó víðar væri leitað var þó Paul McShane sem réði lögum og lofum á miðjunni og var valinn maður leiksins hjá Aftureldingu.

Önnur úrslit í deildinni voru nokkuð hagstæð og eftir 16 umferðir er Afturelding í öðru sæti með 31 stig, stigi á eftir KV en stigi á undan HK. Næsti leikur er í Sandgerði gegn Reyni á sunnudaginn kemur