Strákarnir skutu Frömurum skelk í bringu

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Þeir bláklæddu úr höfuðborginni áttu e.t.v. von á rólegu kvöldi þegar þeir mættu 2.deildar liði Aftureldingar en því var ekki að heilsa. Leikurinn reyndist nokkuð jafn og hin besta skemmtan en heimamenn gáfu ekkert eftir gegn hinum frægu andstæðingum.

Á köflum mátti ekki á milli sjá hvort liðið lék í efstu deild en Framarar voru þó örlítið nákvæmari í sínum aðgerðum og uppskáru mark, nokkuð umdeilt þó í fyrri hálfleik. Afturelding beit þá í skjaldarrendur og náði að jafna snemma í seinni hálfleik með glæsimarki Arnórs Þrastarsonar en aftur komst Safamýrarliðið yfir. Forystan stóð þó ekki lengi því John Andrews jafnaði metin að nýju úr vítaspyrnu. Fram tókst þó að knýja fram sigur með sínu þriðja marki og úrslitin því 2-3.

Afturelding sýndi á köflum skínandi góðan leik og geta okkar menn borið höfuðið hátt þrátt fyrir ósigurinn en liðið mætir KV í næsta leik á Varmárvelli á fimmtudag í 2.deildinni.

Mynd:Raggi Óla.