Tap í Lengjubikarnum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

ÍA byrjaði betur og lék undan nokkuð sterkum vindi í fyrri hálfleik. Færin voru fá en hættuleg og um miðjan hálfleikinn varð samskiptaleysi í vörninni til þess að Guðrún Karitas Sigurðardóttir náði að stela knettinum og lyfta honum laglega yfir Mist í marki Aftureldingar. Stóð 0-1 í hálfleik.

Strax í upphafi síðari hálfleiks náði Guðrún Karitas aftur að setja boltann í netið og aftur eftir að varnarleikur okkar brást. Tvö ódýr mörk og staðan orðin erfið. ÍA bætti svo við þriðja markinu um miðjan hálfleikinn og enn var það Guðrún Karitas sem fullkomnaði þrennu sína þegar hún fékk boltann óvölduð í markteig Aftureldingar. Á myndbandsupptöku virðist hún reyndar rangstæð og varnarmenn okkar voru ekki ánægðir með störf aðstoðardómara þar en markið stóð og staðan orðin 0-3.

En baráttan og vinnusemin hefur lengi verið aðalsmerki Aftureldingar og liðið lagði ekki árar í bát heldur náði yfirhöndinni í leiknum. Kristín Þóra Birgisdóttir skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark þegar hún elti langa sendingu frá Mist markverði og lyfti boltanum laglega framhjá markverði ÍA.

Undir lokin var svo Kristín Þóra aftur á ferðinni og núna eftir sendingu frá systur sinni, Sigríði Þóru og staðan orðin 2-3. Aftureldingu dugði ekki það sem eftir var leiks til að jafna og leik lauk því með sigri ÍA.

Leikur Aftureldingar bar þess nokkur merki að liðið hefur verið á ströngum æfingum undir stjórn Theódórs Sveinjónssonar sem tók við stjórn liðins í síðustu viku. Stelpurnar okkar voru seinar í gang en áttu fína spretti og verða án efa orðnar léttari á sér þegar Pepsideildin hefst í maí.