Þrjú stig sótt í Breiðholtið

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikið var við sérlega haustlegar og séríslenskar aðstæður – rigningu og rok, en engu að síður brá fyrir ljómandi skemmtilegum köflum í leiknum. Fréttaritari missti reyndar af byrjun leiksins en í hálfleik var staðan 1-1 eftir að Alexander Aron Davorsson náði að jafna undir lok hálfleiks en ÍR hafði náð forystunni rétt áður.

Í síðari hálfleik voru okkar menn sterkari og eftir nokkrar lofandi sóknir fengum við réttilega dæmda vítaspyrnu eftir að Axel Lárusson var tekinn niður í teignum eftir laglegt gegnumbrot. Alexander Aron steig ískaldur á punktinn og skoraði örugglega og staðan 2-1 fyrir Aftureldingu.

Síðasta korterið eða svo var mikið um að vera og bæði lið sóttu af kappi. ÍR fékk umdeilanlega vítaspyrnu þegar varamaðurinn Gunnar Logi Gylfason fékk boltann í hendina af stuttu færi, nýkominn inná í sinn fyrsta meistaraflokksleik, en Anton markmaður gerði sig breiðan og leikmaður ÍR skaut framhjá úr vítinu. Undir lokin fengu okkar menn nokkur prýðisfæri til að klára leikinn en fleiri urðu mörkin ekki og úrslitin 2-1 fyrir Aftureldingu.

Afturelding er áfram í þriðja sætinu með jafnmörk stig og KV en lakara markahlutfall og tveimur stigum á eftir toppliði HK.

Næsti leikur er heima á þriðjudaginn gegn Hamar.