Valur vann í Egilshöllinni

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Athygli vakti að leikurinn var færður í Egilshöllina þrátt fyrir að karlalið Vals hefði leikið deginum áður á Vodafonevellinum en ekki þótti á völlinn leggjandi að hafa kvennaleikinn þar líka.

Valur er með afar öflugt lið og eftir rólega byrjun fóru sóknarlotur þeirra að þyngjast. Ólína G. Viðarsdóttir náði forystunni eftir 12 mínútna leik með laglegu skoti í fjærhornið og eftir um hálftíma leik bætti Elín Metta Jensen öðru við þegar hún fékk boltann óvölduð í teignum og skoraði örugglega. Varnarmenn Afturelding töldu hana þó rangstæða og á sjónvarpsupptöku virðist hugsanlega eitthvað til í því. En markið stóð og stuttu síðar skoraði Elín aftur þegar hún hirti frákastið eftir hornspyrnu og darraðardans í teignum. Staðan 3-0 í hálfleik.

Hildur Antonsdóttir bætti fjórða markinu við eftir um klukkutíma leik og úrslitin þar með ráðin en undir lok leiksins komu þrjú ódýr mörk frá Ólínu, Svönu Rún Hermannsdóttur og Svövu Rós Guðmundsdóttur og óþarflega stór sigur Vals staðreynd.

Aftureldingarliðið mætti staðráðið í að verjast vel og tókst það ágætlega á köflum en þess á milli fundu sterkar Valskonur leiðir í gegnum vörnina okkar og nýttu sér það vel. Má mikið vera ef Valur gerir ekki alvöru atlögu að Íslandsmeistaratitlinum en lið þeirra virðist afar heilsteypt og sterkt.

Lið Aftureldingar:
Mist
Guðný (Eva 57) – Lilja – Hrefna – Inga
Brynja – Kristrún – Amy
Sigga – Aldís – Valdís (Kristín Þóra 57)

Mynd; Fótbolti.net/Hafliði Breiðfjörð