9. flokkur í úrslitakeppni Íslandsmótsins

Körfuknattleiksdeild Aftureldingar Körfubolti

Í kvöld mætti 9. flokkur drengja ríkjandi Íslandsmeisturum Stjörnunnar í undanúrslitum Íslandsmótsins.  Leikurinn fór fram í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ.  Stjarnan var efst í deildinni eftir leiki vetrarins en Afturelding var í 4. sæti deildarinnar.  Liðin hafa mæst tvívegis á yfirstandandi leiktíð og Stjarnan vann í Varmá í haust og eftir áramót fór Afturelding í Garðabæinn og sótti sigur.  Það var því vitað fyrirfram að leikurinn gat farið á hvorn veginn sem er.  Okkar menn menn voru stigi yfir eftir fyrsta leikhluta og gáfu svo í öðrum leikhluta og leiddu leikinn í leikhléi með 6 stigum, 27-33.  Í þriðja leikhluta gekk okkar mönnum illa og náðu Stjörnumenn að saxa vel á forskotið og komust einu stigi yfir í lok þriðja leikhluta. Fjórði leikhluti var æsispennandi og skemmst frá því að segja að okkar menn náðu að tryggja framlengingu, 72-72.  Stjörnumenn voru komnir í villuvandræði og 3 leikmenn úr byrjunarliðinu komnir með 5 villur.  Okkar menn gátu nýtt sér þetta og lönduðu sætum 7 stiga sigri, 84-91.  Stigahæstir í liði Aftureldingar voru Sigurbjörn Einar Gíslason með 21 stig, Dilanas Sketrys með 20 stig og Björgvin Jónsson með 18 stig.  Í fráköstum voru Dilanas, Halldór Ingi Kristjánsson og Sigurður Brynjarsson atkvæðamestir með 11 fráköst hver.

Um næstu helgi fer fram hinn undanúrslitaleikurinn þar sem KR tekur á móti Fjölni.  Sigurvegarinn úr þeim leik mun mæta okkar mönnum í Aftureldingu en í því einvígi verður leikið heima og heiman og það lið sem fyrst sigrar tvo leiki veður Íslandsmeistari.

Til hamingju með glæsilega baráttu og sigur.

Áfram Afturelding.