Starfið í körfunni er í fullum gangi en hér koma nokkrar fréttir frá okkur:
Dósasöfnun hjá 7.-10. flokki fór fram í gær laugardaginn 2. mars en á milli 50 og 60 einstaklingar tóku þátt í söfnunni að þessu sinni, iðkendur og foreldrar. Gengið var í hús í öllum Mosfellsbæ í frábæru sólríku veðri. Vel safnaðist að þessu sinni og frábær stemning myndaðist í hópnum og gaman að sjá flotta blöndun á milli árganga og ekki síður alla þessa frábæru sjálfboðaliða og foreldra sem standa saman í kringum starfið okkar.
9. flokkur, en það eru strákar fæddir 2009 hafa verið að spila mikið í lok febrúar og byrjun mars, síðasta mánudag 27. febrúar gerðu þeir sér lítið fyrir og sigruðu topplið Stjörnunnar 78-70 í Garðabænum og var það virkilega kærkominn sigur hjá þeim gegn ríkjandi Íslandsmeisturum. Spilamennskan hefur verið vaxandi síðustu vikur og samspil gott. Þeir fylgdu þessum sigri síðan eftir í morgun að Varmá með sannfærandi sigri á Fjölni 64-57 en þegar rúm 1 ½ mínúta lifði leiks höfðu strákarnir 14 stiga forystu 64-50, Fjölnismenn áttu þó góðan endasprett sem dugði ekki til og frábær 7 stiga sigur staðreynd eins og fyrr segir. B-lið 9. flokks spilaði svo einnig í morgun að Hlíðarenda gegn Valsmönnum, úr varð hörkuleikur þar sem Valsmenn enduðu með naumum 5 stiga sigri.
10.flokkur lék einnig síðustu helgi og sigruðu þeir Hamar/Þór Þorlákshöfn 79-72 að Varmá en þeir leiddu allan leikinn. Sem stendur eru allir þessir hópar í úrslitakeppni sinna deilda og stefna að því að halda sér þar og keppa til úrslita í vor.
7. flokkur karla sem eru strákar fæddir 2011 er fjölmennur hópur og sendum við 2 lið til keppni í Íslandsmóti en keppt er 5 sinnum yfir árið. Fjórða og næst síðasta umferð hófst í dag þar sem þeir skoppuðust vestur í bæ og kepptu gegn KR-ingum. Okkar menn spiluðu hörkuvel í dag og sigruðu leikinn nokkuð örugglega 61-46. En fyrir rétt rúmum 4 vikum síðan töpuðu þeir einmitt fyrir þeim með minnsta mögulega mun. Fín frammistaða hjá strákunum í þessum fyrsta leik. Þeir leika næsta laugardag 9. mars í Garðabænum og enda svo 16. mars með 2 leikjum að Varmá. Afturelding 2 leikur svo alla sína leiki á Selfossi helgina 16.-17.mars nk. Spennandi verður sjá hvernig þeim mun ganga og flytjum við ferskar fréttir af því þegar þar að kemur. Á myndinni má sjá Aftureldingu 1 rétt fyrir leik í vesturbænum í dag.
MB.10 ára en það eru iðkendur í 5. bekk munu síðan leika 4. umferðina sína um næstu helgi 9.-10. mars. Þar sendum við einnig tvö lið til keppni og hefur verið mjög flottur gangur í þessum hóp í vetur. ´
Nóg hefur því verið að gera og nóg framundan, allir velkomnir að fylgja okkur og styðja við bakið á körfunni. Karfa er skemmtileg.
Áfram Afturelding körfubolti