Þrír leikmenn Aftureldingar í 12 manna hóp

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Í dag tilkynnti Körfuknattleikssamband Íslands um 12 manna hóp í landsliði U15.  Afturelding á þrjá leikmenn í lokahópnum og er þetta í fyrsta sinn sem félagið á fulltrúa í landsliðum Íslands í körfuknattleik.  Þessir þrír leikmenn eru Björgin Már Jónsson, Dilanas Sketrys og Sigurbjörn Einar Gíslason en þeir urðu á dögunum Íslandsmeistarar með liði Aftureldingar í 9 flokki.

Í vetur hafa þeir tekið þátt í landsliðsæfingum, í desember hófu 50 leikmenn æfingar undir handleiðslu Leifs Steins Árnasonar landsliðsþjálfara U15.  Í febrúar voru síðan 32 leikmenn boðaðir og voru okkar menn enn í hópnum.  Í apríl fengu þeir svo allir tilkynningu um að þeir höfðu verið valdir í 16 manna æfingahóp fyrir landsliðið.  Um helgina kom þessi hópur saman til æfinga og nú hefur verið tilkynnt um 12 manna hópinn sem tekur þátt í alþjóðlegu móti í Finnlandi í ágúst, nánar tiltekið í Kisakallio dagana 2.-9. ágúst.  Þar mæta íslensku liðin í U15, drengja og stúlkna, liðum Danmörku, Hollands, Þýskalands og heimamanna í Finnlandi.  Æfingar byrja síðan á fullu þann 11. júlí og allt fram að mótinu í Finnlandi.  Fram að landsliðsæfingum í júlí munu þeir æfa vel með sínum félögum í Aftureldingu sem heldu úti metnaðarfullu sumarstarfi fyrir iðkendur.

Að koma fram fyrir Íslands hönd á erlendri grundu er kostnaðarsamt og þurfa leikmenn íslensku liðanna að borga úr eigin vasa ríflega 250 þúsund krónur fyrir að taka þátt í verkefnum sumarsins.  Drengirnir munu því væntanlega á næstu vikum óska eftir stuðningi velunnara til að fjármagna þetta ævintýri.   Það er auðvitað mikill heiður að klæðast landsliðsbúningnum og vera fulltrúi Íslands í verkefni sem þessu.  Óskum við drengjunum innilega til hamingju með þennan glæsilega áfanga.

Hér má sjá frétt á www.kki.is um valið.