Afturelding í 3. sæti liða á Íslandsmeistaramótinu

TaekwondoTaekwondo

Ungliðinn Viktor Ingi Ágústsson sem jafnframt æfir með landsliðinu tryggði sér gull ásamt Herdísi Þórðardóttur og Ágúst Erni Guðmundssyni. Haukur Skúlason og stjúpsonur hans Gabríel Daði fóru báðir heim með silfur. Arnar Bragason landsliðsmaður og þjálfari í deildinni hreppti einnig silfur ásamt Jón Hirti Pétursyni sem lenti á móti Viktori Inga í úrslitum. Jón Guðmundar- og Selmuson og Sindri Ottó fóru heim með brons. Verðlaun voru gefin fyrir bardaga mótsins hann var á mili Jóns Guðmundssonar, þjálfara TKD deild Aftureldingar og Jóns Steinars Brynjarsonar frá Keflavík.

 

Mosfellingar komu heim með þrjú gull, fjögur silfur og þrjú brons. Á mótinu lenti Afturelding í þriðja sæti (36 stig) á eftir Selfoss (47 stig) og Keflavík (66 stig) en þessi þrjú félög hafa barist um verðlaunin á öllum mótum síðustu þrjú árin. Á Íslandsmeistaramóti keppa aðeins iðkendur sem eru 12 ára og eldri og því aðeins hægt að senda hluta deildarinnar á mótið. Afturelding var aðeins 11 stigum fyrir neðan Selfoss að þessu sinni og því mátti litlu muna að deildin sigraði 2. sætið á mótinu.

 

Að mati mótshaldara, keppenda og áhorfenda var þetta eitt best heppnaðasta Íslandsmeistaramót sem hefur farið fram á síðastliðnum árum. Taekwondo Samband Íslands fékk til liðs við sig Chakir Celbat, yfirdómara Alþjóða Taekwondo Sambandsins, sem kom til landsins fyrir mótið og hélt dómaranámskeið fyrir fullum sal þjálfara og iðkenda. Hann er einnig yfirdómari í Taekwondo á ÓL í sumar Með nýjum rafbrynjum og „kvörtunarkvóta“ hefur ólympískt Taekwondo breyst gríðarlega. Rafbrynjurnar mæla höggþunga og hornadómarar gefa því eingöngu stig fyrir höfuðspörk. Flæði bardagana er mun hraðara og þjálfarar fá rétt til að mótmæla stigagjöf með Video Replay tækni. Síðustu 10 sekúndur eru skoðaðar frá þrem mismunandi sjónarhornum. Þjálfari fær kvótann tilbaka ef hann hefur rétt fyrir sér en missir hann ellegar.

 

Aðeins eitt mót er eftir á tímabilinu, TKÍ Bikarmót III,  og mun Afturelding senda alla sína iðkendur á mótið. Afturelding tapaði naumlega fyrir Keflvíkingum fyrir ári síðan á heimavelli hér í Mosó. Því höfum við ekki gleymt og munum mæta þeim í vígahug þann 21. – 22. apríl á síðasta móti tímabilsins. Sjáumst öll í Bardagalistahöll Ármanns þann 21. apríl því okkur mun vanta aðstoð við að bera allt gullið heim.